Innlent

Láta af stjórn Kabúl-flugvallar

Íslendingar munu láta af stjórn flugvallarins í Kabúl á næsta ári og þar með tæplega tvö þúsund manna herliðs. Ofurstinn Hallgrímur Sigurðsson hefur verið æðsti yfirmaður heraflans á herstöðinni á flugvellinunum og þar eru tæplega tuttugu Íslendingar. Eftir sjálfsmorðsárásina á Chicken Street fyrir skömmu, þar sem þrír íslenskir friðargæsluliðar særðust, var ákveðið að kalla Hallgrím heim fyrr en áætlað var og á nýr yfirmaður að kanna öryggismál á flugvellinum í samstarfi við Hallgrím. Davíð Oddsson utanríksráðherra sagði á Alþingi í morgun að Íslendingar muni láta af stjórn flugvallarins í Kabúl og heraflans þar á næsta ári. Hann sagði að frá því Íslendingar tóku þar við stjórninni í júní síðastliðnum hafi verið ljóst að þetta yrði umfangsmesta og áhættusamasta friðargæsluverkefni sem Íslendingar hafa tekist á hendur.  Davíð segir verkefnið hafa gengið vel og eigi friðargæsluliðarnir sem þar eru hrós skilið fyrir frábær störf við erfiðar aðstæður. Hann bætti svo við: „Þegar stjórn flugvallarins færist í hendur annars aðildarríkis Atlantshafsbandalagsins á næsta ári kemur til greina að Ísland leggi í staðinn af mörkum liðsmenn til annarra friðargæsluverkefna í Afganistan.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×