Innlent

Segir fjármálastjórn slaka

Hækkun útsvars í Reykjavík þýðir að borgin tekur þriðjung af áformaðri lækkun tekjuskatts um áramótin. Oddviti sjálfstæðismanna segir þetta beina afleiðingu af slakri fjármálastjórn og langvarandi skuldasöfnun R-listans. Útsvar og fasteignaskattar hækka í Reykjavík um næstu áramót, samkvæmt ákvörðun meirihluta R-listans í gær en tillaga þess efnis verður formlega lögð fyrir borgarstjórn á þriðjudag. Þetta veldur því að ávinningur íbúa Reykjavíkur verður minni af áformaðri tekjuskattslækkun ríkisins, en ríkisstjórnin hefur tilkynnt að tekjuskattur lækki um eitt prósent um áramótin, fari úr 25,75% í 24,75%. Útsvarið myndar einnig staðgreiðsluprósentuna en í Reykjavík mun það hækka um 0,33%, fara úr 12,7% í 13,03%. Þetta þýðir að skatthlutfall Reykvíkinga lækkar ekki um eitt prósent heldur um 0,67%, fer úr 38,45% í 37,78%. Samnhliða útsvarshækkun verða fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði hækkaðir. Álagningarhlutfallið hækkar úr 0,32% upp í 0,345% af fasteignamati. Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, segir að ástæða aðgerðanna sé sú að eiga svigrúm til að greiða niður skuldir og til að mæta tilvonandi launahækkunum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðismanna segir þetta beina afleiðingu af langvarandi skuldasöfnun og slakri fjármálastjórn R-Listans. Árni segir hins vegar að fjárhagur sveitastjórna sé víða bágur og það viti Villhjálmur mætavel. Villhjálmur svarar því til að Reykjavíkurborg sé mun öflugri eining en margar aðrar sveitastjórnir og borgin sé búin að stýra sínum fjárhag með þeim hætti að í fyrsta sinn verði að nýta útsvarið í botn. Það sé þó að minnsta kosti gott að nú sé vandinn í fyrsta sinn viðurkenndur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×