Innlent

Merki UNESCO afhjúpað á Þingvöllum

Merki heimsminjaskrár Sameinuðu þjóðanna verður afhjúpað á Þingvöllum við hátíðlega athöfn í dag klukkan hálf þrjú. Francesco Bandarin, yfirmaður heimsminjaskrifstofu UNESCO, verður á meðal gesta við athöfnina og flytur hann ávarp ásamt Birni Bjarnasyni, formanni Þingvallanefndar, og Margréti Hallgrímsdóttur, formanni samráðsnefndar um heimsminjaskrá. Þingvellir voru samþykktir inn á heimsminjaskrá þann 2.júlí síðastliðinn og eru þar með komnir á lista yfir 800 menningar- og náttúruminjastaði sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Þingvallanefnd hefur markað stefnu garðsins fyrir næstu tuttugu ár og er markmið hennar að taka á tengslum verndunar og notkunar einstakra svæða innan garðsins og þeim áhrifum sem samspil mismunandi þátta kalla fram. Þá hefur einnig verið unnin framkvæmdaáætlun til fimm ára þar sem settar eru niður leiðir að þeim markmiðum sem sett hafa verið og verkefnum forgangsraðað. Eins og áður segir hefst athöfnin á Þingvöllum klukkan 14.30 við fræðslumiðstöðina við Hakið og eftir ávörp verður gengið niður Almannagjá þar sem barnakór Skálholtskirkju og Skálholtskórinn munu syngja. Sigrún Hjálmtýsdóttir syngur og Gunnar Eyjólfsson og Steindór Andersen munu flytja rímur og texta tengda Þingvöllum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×