Innlent

Friður með vísindalegri þekkingu

Í dag er formlegur stofndagur samtaka sem kalla sig Alvöru sameinuðu þjóðirnar til friðar (e. Real United Nations for World Peace). Það eru önnur samtök; Global Country of World Peace (GCWP) sem standa að stofnun hinna nýju sameinuðu þjóða en GCWP hafa skilgreint sig sem hnattríki sem fer með foreldrahlutverk allra ríkisstjórna heims. "Ríkisborgarar þess, af ýmsu þjóðerni, iðka allir huglæga visindalega prófaða tækni sem kyrrir vitundina og skapar varanlegan frið," eins og segir í fréttatilkynningu. Guðrún Kristín Magnúsdóttir, kennd við Freyjuketti og Óðsmál, hefur forgöngu um verkefnið á Íslandi og er mjög áfram um að það nái fótfestu í heiminum. GCWP stendur meðal annars að byggingu sérstakra friðarhalla í þrjú þúsund borgum heimsins og vinnur Guðrún Kristín að því að fá lóð undir slíka friðarhöll í Reykjavík. Hún segir nýju samtökin stofnuð samtímis í 108 löndum í dag og hefur fulla trú á að starfsemin muni færa okkur frið á jörð. Stofnandi GCWP er indverski eðlisfræðingurinn Maharishi, sem á sínum tíma fann upp tækni sem nefnist TM - Siddhi og hefur nefnst innhverf íhugun á íslensku. Með þeirri aðferð, sem Guðrún Kristín segir þekkta og hávísindalega, sé hægt að koma á raunverulegum friði. Hundruð tilrauna og rannsókna ku liggja fyrir því til staðfestingar. Dagurinn í dag, 22. nóvember, var valinn til stofnunar Alvöru sameinuðu þjóðanna til friðar því í dag er réttur dagur til að vekja og uppljóma vitund samkvæmt vedíska dagatalinu. "Lögmál náttúrunnar er best vakandi til stuðnings framþróunar," samkvæmt fréttatilkynningu.
Maharishi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×