Innlent

Einstök efni gegn krabbameini

Í íslenskum fléttum og sjávarlífverum er að finna einstök efni gegn sýklum, veirum og krabbameini vegna þess að þær eru svo harðgerðar. Þetta hefur ný íslensk rannsókn leitt í ljós. Næsta skrefið er lyfjaframleiðsla. Um þriðjungur lyfseðilsskyldra lyfja á rætur að rekja til náttúrunnar. Íslenskir vísindamenn hafa í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila leitað að lyfjavirkum efnum í lífverum sem vaxa við erfið skilyrði, til dæmis uppi á heiðum og í sjónum. Kristín Ingólfsdóttir, prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands, segir lífverur sem lifi við erfið skilyrði þurfa að koma sér upp efnum sér til varnar og slík efni hafi oft áhugaverða lífvirkni. Leitað hefur verið í sjávarlíffverum við landið og fundist hafa fjórar tegundir, til dæmis krossfiskategundir sem innihalda efni sem hafa marktæk áhrif á krabbameinsfrumur. Í fléttum, sem eru sambýli sveppa og þörunga, myndast einstök efni sem ekki hafa fundist í öðrum lífverum. Þar hafa einnig fundist efni sem hafa áhrif á krabbameinsfrumur. Einnig hafa lyngplöntur verið til skoðunar sem hafa í sér efni sem vinna á bakteríum sem ónæmar eru fyrir lyfjum. Næsta skrefið er svo að prófa virkni efnanna á dýrum og þróa lyf. Spurð hvort það geti hugsanlega gagnast fóki að taka inn fléttur og skófir eins og þær koma af steinunum segir Kristín svo vera. Hún segir fléttur eins og fjallagrös hafa verið notaðar til sjálfsvarna og forvarna. Erfitt er þó að fullyrða neitt á þessu stigi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×