Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp seinna mark Swansea City í 2-0 sigri á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Þetta var fjórði sigur Swansea í síðustu sex leikjum en Svanirnir eru komnir upp í 15. sæti deildarinnar. Swansea er með 24 stig, fjórum stigum frá fallsæti.
Leicester er hins vegar í tómu tjóni en meistararnir hafa tapað fimm leikjum í röð og ekki skorað á þessu ári.
Alfie Mawson kom Swansea yfir á 36. mínútu með góðu skoti úr teignum. Þetta var þriðja mark miðvarðarins í síðustu sex leikjum.
Þegar tvær mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik jók Martin Olsson muninn í 2-0 eftir laglega sókn og frábæra sendingu Gylfa.
Þetta var áttunda stoðsendingin sem Gylfi gefur í vetur en hann hefur komið með beinum hætti að 16 af 31 marki Swansea í ensku úrvalsdeildinni.
Fátt markvert gerðist í seinni hálfleiknum og Swansea landaði góðum sigri.
Gylfi lagði upp mark í sigri á meisturunum | Sjáðu mörkin
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mest lesið

Diogo Jota lést í bílslysi
Fótbolti


Allt sem við vitum um banaslys Diogo Jota
Enski boltinn


„Ég var bara með niðurgang“
Fótbolti


Yfirlýsing frá Liverpool: „Ólýsanlegur missir“
Enski boltinn

Glódís mætti ekki á æfingu
Fótbolti

