Fótbolti

Tísku­spaðinn Þor­leifur fer aftur út

Sindri Sverrisson skrifar
Þorleifur Úlfarsson staldraði nokkuð stutt við hjá Breiðabliki og er farinn aftur út.
Þorleifur Úlfarsson staldraði nokkuð stutt við hjá Breiðabliki og er farinn aftur út. Breiðablik

Sóknarmaðurinn Þorleifur Úlfarsson, sem var á mála hjá Breiðabliki á síðustu leiktíð, hefur ákveðið að halda aftur til Bandaríkjanna og spila þar með liði Loudoun United. Hann ætlar sömuleiðis að fá þar áfram útrás fyrir áhuga sinn á tískufötum.

Þorleifur, sem er 25 ára, sló fyrst í gegn í bandaríska háskólafótboltanum og var svo ráðinn í kjölfarið til MLS-félagsins Houston Dynamo. Þaðan fór hann til Debrecen í Ungverjalandi en svo fóru meiðsli að hafa áhrif á ferilinn.

Hann brá á það ráð að koma aftur til uppeldisfélags síns Breiðabliks en náði aðeins að spila þrjá leiki í Bestu deildinni í fyrra, auk tveggja leikja í Sambandsdeild Evrópu, eftir að hafa komist aftur á ferðina eftir meiðslin.

Nú hefur hann hins vegar skrifað undir samning til tveggja ára við Loudoun United, sem spilar í USL-deildinni, þeirri næststerkustu í Bandaríkjunum á eftir MLS.

„Ég er spenntur fyrir þessum nýja kafla og þakklátur fyrir tækifærið. Hérna ætla ég að leggja hart að mér og vaxa með hverjum degi, og gera það sem ég get til að liðinu vegni vel. Ég lofa að leggja allt í sölurnar fyrir stuðningsmenn og alla hjá félaginu,“ sagði Þorleifur á heimasíðu síns nýja félags.

Í kynningu á honum á Instagram-síðu félagsins var hann beðinn um dæmi um eitthvað sem hann gæti ekki lifað án og svaraði:

„Eitthvað sem ég gæti ekki lifað án er alveg klárlega tíska. Að geta tjáð mig með því hvernig ég klæði mig er mér mjög mikilvægt. Og ég er viss um að þið fáið að sjá það í framtíðinni.“

Loudoun United er staðsett í Leesburg í Virginíufylki. Félagið var stofnað fyrir sjö árum, fyrst sem varalið D.C. United en eftir eigendaskipti var þeirri tengingu slitið árið 2023. Liðið hafnaði í 8. sæti af 12 liðum austurdeildar USL-deildarinnar á síðustu leiktíð en féll svo úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Ný leiktíð hefst í byrjun mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×