Innlent

Telur Pétur hafa svarað ágæt­lega fyrir lóða­við­skipti

Kjartan Kjartansson skrifar
Pétur Marteinsson sækist eftir að leiða lista Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningum í vor. Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, telur hann hafa svarað ágætlega spurningum um viðskipti sín við borgina sem athafnamaður.
Pétur Marteinsson sækist eftir að leiða lista Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningum í vor. Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, telur hann hafa svarað ágætlega spurningum um viðskipti sín við borgina sem athafnamaður. Vísir

Forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar telur að Pétur Marteinsson, frambjóðandi í prófkjöri flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar, hafi svarað ágætlega spurningum um viðskiptahagsmuni sína. Hann hafi gert grein fyrir þeim og verið skýr í þeim efnum.

Töluvert hefur verið fjallað um framsal félags Péturs fyrir tveimur árum á lóð sem það keypti undir íbúðauppbyggingu af Reykjavíkurborg árið 2018. 

Félagið sigraði í hönunarsamkeppni á vegum borgarinnar og fékk í kjölfarið úthlutað um fimm þúsund fermetra lóð í Nýja Skerjafirði. Það greiddi fimmtíu milljónir króna í upphafi en heildarverðið átti að nema tæpum hálfum milljarði þegar uppi væri staðið.

Uppbygging tafðist hins vegar, meðal annars vegna ágreinings ríkis og borgar um byggingarsvæði í kringum Reykjavíkurflugvöll.

Pétur sagði í viðtali við kvöldfréttir Sýnar í gærkvöldi að hann hefði fengið 69 milljónir króna í sinn hlut þegar félagið sem hann átti í seldi lóðirnar til annars félags árið 2023. Meirihluti þess fjár hefði farið í launakostnað vegna byggingaráformanna.

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðhera og formaður Samfylkingarinnar, segist ekki hafa frekari upplýsingar um málið en almenningur. Hún viti ekki betur en að Pétur hafi gert grein fyrir sínum hagsmunum vegna þess í fjölmiðlum og að hann hafi verið frekar skýr um þá.

„Ég tel hann hafa svarað ágætlega fyrir þetta mál,“ sagði Kristrún við fréttamann Sýnar eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Um ástæður þess að félag hans seldi lóðirnar sagði Pétur að engar framkvæmdir hefðu komist í gang vegna kærumála og pólitíkur. Á meðan hefðu engar tekjur komið inn í félag hans.

„Við fengum til okkar arkitekta og verkfræðinga þannig það var töluverður kostnaður. Þannig að við fáum hluthafa inn í verkefnið með okkur og þegar þetta dregst enn á langinn þá erum við keyptir út,“ sagði Pétur í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×