Innlent

Niður­stöður sam­ræmdra prófa í vor verði opinberaðar

Árni Sæberg skrifar
Inga Sæland tók við völdum í mennta- og barnamálaráðuneytinu af Guðmundi Inga Kristinssyni í gær.
Inga Sæland tók við völdum í mennta- og barnamálaráðuneytinu af Guðmundi Inga Kristinssyni í gær. Vísir/Vilhelm

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt til umsagnar drög að reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmds námsmats í grunnskólum. Reglugerðin snýr meðal annars að nýjum samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði, sem nemendur í 4., 6. og 9. bekk grunnskóla gangast undir í fyrsta sinn nú í vor. Samkvæmt reglugerðinni verða niðurstöður þessara prófa gerðar opinberar, bæði hvað varðar árangur nemenda á landsvísu sem og í einstökum grunnskólum.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að reglugerðin snúi einnig að að safni valkvæðra matstækja Matsferils. Samræmda námsmatið, Matsferill, sé miðlægt heildstætt safn matstækja í formi staðlaðra stöðu- og framvinduprófa, skimunarprófa og annarra matstækja sem kennarar og skólar geti nýtt sér í kennslu og við mat á stöðu og framvindu hvers barns í námi, jafnt og þétt yfir skólagönguna.

Markmið Matsferils séu að:

  • veita upplýsingar um stöðu og framfarir nemenda,
  • meta árangur miðað við ákveðin hæfniviðmið aðalnámskrár,
  • styðja við skipulag kennslu og snemmtækan stuðning,
  • veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsframvindu nemenda,
  • veita samanburðarhæfar upplýsingar um stöðu grunnskóla, sveitarfélaga og skólakerfis í heild til stefnumótunar í námi og kennslu.

Á að leiða til umbóta

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu annist framkvæmd Matsferils, vinnslu og varðveislu upplýsinga í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Matið sé lagt fyrir með rafrænum hætti. 

„Niðurstöður samræmda námsmatsins skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda. Grunnskólar skulu fylgja eftir niðurstöðunum þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi og ber að gera skólanefndum sveitarfélaga árlega grein fyrir niðurstöðum og umbótum. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu skal jafnframt nýta niðurstöður til að styðja við skólastarf.“

Hvetja fólk til að veita endurgjöf

Niðurstöður skyldubundinna prófa verði gerðar aðgengilegar og birtar opinberlega, til dæmis staða hvers skóla miðað við landsmeðaltal í skólum yfir ákveðnum nemendafjölda.

„Mennta- og barnamálaráðuneytið hvetur foreldra, kennara, skólastjórnendur, nemendur, aðra hagaðila og alla þá sem láta menntun barna sig varða til að veita endurgjöf,“ segir í tilkynningu.


Tengdar fréttir

Nýr matsferill „stórkostlegar fréttir“ að mati formanns

Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík og formaður skóla- og frístundasviðs, segir að nýr matsferill muni gjörbylta grunnskólum borgarinnar. Þá segir hún að biðlistar eftir leikskólaplássi séu á réttri leið, nánast sé búið að veita öllum átján mánaða og eldri börnum leikskólapláss og umtalsvert færri börn séu á biðlista eftir plássi en áður.

Hefur ekki áhyggjur af svindli með nýju námsmati

Nýtt samræmt námsmat verður tekið upp í grunnskólum landsins í vetur. Nemendur í sömu árgöngum fá þó ekki allir sömu spurningar og þá geta skólar valið hvaða daga prófin verða tekin. Sérfræðingur hjá Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu hefur þó ekki áhyggjur af svindli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×