Innlent

Vill lækka veikindahlutfall opin­berra starfs­manna

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra stefnir á með aðgerðum að lækka veikindahlutfall hjá opinberum starfsmönnum.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra stefnir á með aðgerðum að lækka veikindahlutfall hjá opinberum starfsmönnum. Vísir

Fjármálaráðherra segir hátt veikindahlutfall opinberra starfsmanna áhyggjuefni og stefnir á að lækka það með aðgerðum. Ný mannauðsáætlun hafi verið kynnt fyrir næstu þrjú ár sem á m.a. að stuðla að festu í stöðugleika og mönnun.

Hátt veikindahlutfall hefur verið áhyggjuefni hjá mörgum sveitarfélögum og opinberum stofnunum.

Til að mynda var kostnaður Landspítala og Reykjavíkurborgar um sex milljarðar króna árið 2024 á hvora stofnun þegar veikindahlutfallið var um sjö og hálft prósent hjá þeim báðum. Það var svipað í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en Seltjarnarnesbæ tókst að lækka það talsvert á síðasta ári með markvissum aðgerðum að sögn bæjarstjóra.

Brýnt að lækka hlutfallið

Opinberi vinnumarkaðurinn var með tvöfalt hærra veikindahlutfall en hin almenni síðast þegar Hagstofan mældi muninn árið 2020. (Grafík)

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir brýnt að lækka hlutfallið hjá hinu opinbera.

„Við höfum alltaf áhyggjur af þessu hlutfalli. Í sumum tilvikum eru á þessu eðlilegar skýringar. Það er ekkert óeðlilegt að fólk verði veikt, það ganga alls konar sjúkdómar en þetta getur líka verið merki um ákveðið álag í starfi og við höfum verið að skoða aðgerðir í því að koma á móts við starfsfólk til að draga úr þessu,“ segir Daði.

Stytting vinnuvikunnar gæti dregið úr veikindum

Þar vísar Daði í nýja aðgerðaráætlun í mannauðsmálum fyrir næstu þrjú ár. Samkvæmt henni á m.a. koma á mælaborði um stöðu mála sem á að stuðla að festu og stöðugleika í mönnun. Þá á að gefa út leiðbeinandi viðmið um viðveru og fjarveru. 

Hann segir styttingu vinnuvikunnar eitt af því sem gæti dregið úr fjarvistum starfsmanna.

Við höfum með innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar verið að koma á móts við álag. En það er forgangsmál hjá okkur að bæta mannauðsstjórnun hjá okkur..

Aðspurður um hvort stjórnvöld hafi ákveðið einhver mælanleg markmið varðandi fjarvistir vegna veikinda svarar Daði:

„Það er engin ákveðin prósenta en við erum með markmið um að lækka hlutfalli,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×