Innlent

Desem­ber að komast á lista yfir þá allra hlýjustu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Líklega fylgjast fáir eins mikið með veðrinu og veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson.
Líklega fylgjast fáir eins mikið með veðrinu og veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson.

Það stefnir allt í það að desember á landsvísu komist á lista yfir þá allra hlýjustu en hitinn nú er samt nokkuð frá sögulega hlýjum desembermánuði árið 1933. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sem segir desembermánuð 2025 líklega verða í þriðja til fjórða sæti yfir þá allra hlýjustu. Hitamet á Stykkishólmi megi teljast með stærstu veðurtíðindum ársins.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðingsins á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem hann vekur athygli á því að hitamet á Stykkishólmi á Snæfellsnesi árið 2025 sé nánast öruggt. Nú þegar þrír dagar séu eftir af árinu standi meðalhitinn í Stykkishólmi í desember um þremur stigum yfir meðalhita.

„Líklega endar árshitinn þar í 5,7°C. Það yrði 0,2 stigum yfir fyrra meti frá 2016. Á listanum yfir 10 hæstu gildi árshitans eru 6 frá þessari öld, fjögur frá hlýindatímabilinu framan af síðustu öld og ekkert frá 19. öldinni (frá 1845).“

Hann segir að þó þetta megi nú teljast með stærstu veðurtíðindum ársins sé desember líka að skora hátt á mælistokk hita.

„Eftir nokkra vel hlýja daga að undanförnu stefnir allt í það að desember á landsvísu gæti komist á lista yfir þá allra hlýjustu, verður líklega í þriðja til fjórða sæti. Hitinn nú er samt nokkuð frá hinum sögulega desember 1933. Í Reykjavík, á Akureyri og í Stykkishólmi var líka hlýrra annað hvort 2002 eða 2016 (eða bæði árin). Við sjáum hvað setur þegar allar tölur verða komnar og látum Veðurstofuna um að reikna þetta upp á réttan aukastaf þegar upp er staðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×