Innlent

Kjartan sækist ekki eftir endur­ráðningu sem bæjar­stjóri

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Kjartan Már Kjartansson sækist ekki eftir endurráðningu sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson sækist ekki eftir endurráðningu sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Reykjanesbær

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, mun ekki sækjast eftir bæjarstjórasætinu eftir sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Hann ræddi bæjarstjórastarfið og krabbameinsgreininguna í Einmitt.

Kjartan Már var viðmælandi í hlaðvarpsþættinum Einmitt og greindi þar frá að hann sækist ekki eftir endurráðningu sem bæjarstjóri. Hann hyggst starfa út kjörtímabilið en lýkur störfum í kjölfar sveitarstjórnarkosninga næsta vor.

„Þetta eru tólf ár, þetta er bara orðið gott. Tíminn hefur verði skemmtilegur, krefjandi og gengið vel. Við erum á miklu betri stað í dag rekstrarlega.“

Kjartan var bæjarfulltrúi í bæjarstjórn frá 1998 til 2006. Árið 2014 var hann ráðinn sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar þegar bærinn var í miklum fjárhagsvanda. Ferlið við að snúa rekstrinum við hafi verið langt og erfitt.

„Það þurfti að vera algjör samstaða í sveitarstjórninni, annars hefði þetta aldrei gengið,“ segir Kjartan.

Ræddu krabbameinsgreininguna

Kjartan og Einar Bárðason þáttastjórnandi fóru einnig yfir veikindi Kjartans en hann greindist með krabbamein í júlí 2024. Hann fór í tæplega árs veikindaleyfi frá starfi og sneri aftur í nú í september. 

Samhliða veikindunum hefur hann einnig glímt við andlegar áskoranir en segir nauðsynlegt að rjúfa þögnina þar sem karlmenn séu ekki góðir í að ræða hlutina.

„Ég hef alveg farið langt niður og séð bara svart. Þetta gerist enn, þó að lengra sé á milli. En þetta kemur fyrir,“ segir Kjartan.

„Af því ég hef verið opinn með þetta hafa fullt af körlum komið til mín. Menn sem fjölskyldan veit ekki einu sinni að eru veikir. Þeir koma svona næstum fyrir hornið og segja, „getur þú aðeins talað við mig?“

Kjartan segist hafa verið ófeiminn við að ræða hlutina og hitta aðra karla sem séu með svipað krabbamein og hann. Það hafi hjálpað mörgum að setjast niður og ræða málin. Stuðningsnet fjölskyldu, vina og samstarfsfólks hafi skipt sköpum.

„Þetta er hluti af því að vera manneskja. Það gerist eitthvað. Það eina sem maður getur stjórnað eru viðbrögðin við því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×