Lífið

Vann ekki úr nauðguninni og skaddaðist á mænu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lexi Picasso segist hafa flúið djöfla sína og áföll með því að ofkeyra sig í lyftingum. Hann missti lóð á höfuðið og skaddaðist á mænu.
Lexi Picasso segist hafa flúið djöfla sína og áföll með því að ofkeyra sig í lyftingum. Hann missti lóð á höfuðið og skaddaðist á mænu.

Alex Þór Jónsson, betur þekktur sem Lexi Picasso, skaddaðist á mænu þegar hann missti sextíu kílóa lóð á höfuðið. Hann segist hafa notað æfingar til að flýja djöfla sína og nauðgun sem hann varð fyrir í kjallara ömmu sinnar. Hann fór til Kenía í aðgerð við mænuskaða en festist þar í þrjú ár vegna Covid-heimsfaraldursins.

Lexi, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, segist hafa lært auðmýkt og jákvætt hugarfar af því að hafa lent í mænuskaða og verið fastur í Afríku í miðjum heimsfaraldri.

Lexi kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2016.

„Ég átti að fara í aðgerð vegna mænuskaða, en taldi mig ekki vera í nógu góðu andlegu ástandi til að geta það og ákvað að fara til Kenía þar sem konan mín var. Ég hefði verið rúmliggjandi með enga aðstoð ef ég hefði farið í aðgerðina hérna heima án hennar, þannig að ég ákvað að ég yrði að fara út og ná í hana,“ segir Lexi.

„En svo bara fljótlega eftir að ég er kominn út skellur heimsfaraldurinn á. Það lokaðist allt hratt og hlutirnir urðu mjög furðulegir á skömmum tíma,“ segir hann. 

Fékk sextíu kílóa lóð aftan á höfuðið

Lexi fer í þættinum yfir aðdragandann að því hvernig hann varð fyrir mænuskaða. Slysið orsakaðist að miklu leyti af ofþjálfun vegna flótta undan eigin áföllum.

„Ég tók tímabil þar sem ég var eins og brjálæðingur að lyfta og æfa og í raun kominn í algjöra ofþjálfun. Ég var að æfa fleiri fleiri klukkutíma á dag og sé það eftir á að ég var í raun að nota æfingarnar til að flýja sjálfan mig og djöflana mína,“ segir hann. 

„Svo gerist það á einni æfingunni að ég er að lyfta með stöng yfir höfðinu á mér og var ekki með grifflur og stöngin rann og það duttu sextíu kíló aftan á höfuðið á mér.“

Hafði ekki unnið úr nauðguninni

Þegar hann rankaði við sér var hann kominn með þrengingu í mænuna og blöstu þá við fjölmörg vandamál. Hann sjái nú betur hvað leiddi hann á þennan stað.

„Ég bjó á þessum tíma í kjallara hjá ömmu minni sem mér hafði verið nauðgað í þegar ég var yngri. Þegar ég horfi til baka er auðvelt að tengja það saman við það af hverju ég svaf bara fjóra tíma á næturna og var að æfa allt upp í átta klukkutíma á dag,“ segir hann.

Hann taldi sig vera búinn að vinna úr áfallinu en svo var ekki. Hann vill því opna sig um nauðgunina og opna umræðuna.

„Það er svo mikið af karlmönnum sem hafa lent í svona löguðu, en tjá sig ekki. Það þarf einhver að taka af skarið og segja frá, en ekki þegja. Þessir atburðir úr æsku urðu til þess að ég bjó til alls konar flóttamynstur til þess að þurfa ekki að mæta djöflunum sem voru innra með mér.”

Hjálpaði að vita að barn væri á leiðinni

Eftir að Lexi var kominn út til Naíróbí í Kenía áttaði hann sig fljótt á því að hann væri ekki að fara heim eins og hann hafði planað.

„Ég fékk símhringingu frá utanríkisráðuneytinu þar sem mér var sagt að ég væri bara fastur og það væri ekki mikið hægt að gera að svo stöddu. Ég varð auðvitað lífhræddur og það bætti ekki úr skák að vera í stöðunni sem ég var í,“ segir hann.

Lexi segir markvissar kælingar á hverjum degi hafa hjálpað við að minnka bólgur og á endanum komið honum úr hjólastólnum.

Lexi gerði lagið „Nýlent“ með rapparanum Birni.

„Sex mánuðum síðar var ég kominn úr þessum helvítis stól og bara kominn með staf í staðinn og gat byrjað að ganga um með hann. Ég ákvað að halda bara í jákvætt hugarfar og gera allt sem ég gæti gert til þess að ná mér í betra stand. Eitt af því sem hjálpaði mér mikið var þegar konan mín tilkynnir mér að hún sé ólétt og það hvatti mig áfram að vita að ég væri að verða faðir,“ segir hann.

Lexi talaði um ýmislegt annað í hlaðvarpinu. Þar á meðal þegar hann kom eins og stormsveipur inn í íslenskt rapp árið 2016 eftir að hafa starfað með lagasmíðateyminu 808 Mafia í Atlanta. Hann lýsir því þegar tveir fulltrúar fíkniefnalöggæslunnar DEA tóku hann afsíðis og yfirheyrðu hann í sex tíma í von um að hann myndi kjafta frá og segja til samstarfsmanna sinna.

Hægt er að horfa á hluta af viðtalinu við Lexa hér að neðan:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.