Innlent

Segir erfitt fyrir lækna að starfa við boðuð skil­yrði

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ragnar Freyr Ingvarsson formaður Læknafélags Reykjavíkur er verulega ósáttur við frumvarpið sem stjórnvöld eru að vinna að.
Ragnar Freyr Ingvarsson formaður Læknafélags Reykjavíkur er verulega ósáttur við frumvarpið sem stjórnvöld eru að vinna að. Vísir/Vilhelm

Samstarf lækna og stjórnvalda er í hættu ef af fyrirhuguðum breytingum á Sjúkratryggingum verður. Þetta segir Ragnar Freyr Ingvarsson formaður Læknafélags Reykjavíkur og að breytingarnar komi þvert á sátt sem náðist fyrir tveimur árum. 

Drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra um breytingar á Sjúkratryggingum má nú finna í samráðsgátt stjórnvalda. Þær eru gerðar til að skýra betur skyldur Sjúkratrygginga Íslands til að byggja ákvarðanatöku á gagnreyndri meðferð og faglegu og hagrænu mati.

Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir breytingarnar sem lagðar eru til koma læknum á óvart. Aðeins séu rúm tvö ár frá því að nýr samningur var undirritaður vegna þjónustu sérgreinalækna en þá höfðu samningar verið lausir í fimm ár.

„Við sáum þetta bara í samráðsgátt í seinustu viku og okkur var ansi brugðið að sjá þarna hluti sem við töldum að höfðu verið leiddir til lykta á löngum samningafundum hér fyrir tveimur árum síðan. Þarna eru mörg atriði aftur snúin en núna ekki í formi samnings heldur í formi lagatexta og lagafrumvarps.“

Þannig feli frumvarpið í sér ýmsar breytingar sem læknar séu ósáttir við.

„Það er verið að kynna fyrir okkur að valdheimildir ríkisins til þess að leggja einhliða gjaldskrár, að takmarka magn þjónustu og heildarendurgjöld.“

Boðaðar breytingar hafi veruleg áhrif á sérgreinalækna.

„Þarna eru ákvæði sem færir okkur þær skyldur að breyta félögum okkar, flestir læknar eru með samlagsfélög, en það er verið að segja að við verðum að vera með einkahlutafélög. Þarna er verið að leggja á okkur þungar kvaðir varðandi upplýsingagjöf. Við verðum að veita bókhaldsgögn til ríkisins til rýningar og þarna eru bara mjög íþyngjandi ákvæði og gerir það mjög erfitt að verkum að við getum starfað við þessi skilyrði.“

Hann segir frumvarpið koma til með að hafa áhrif á allar heilbrigðisstéttir.

„Maður er bara sleginn yfir þessu. Ég hélt að við ættum í góðu samstarfi við yfirvöld og ég held að formlegum samstarfi okkar myndi ljúka verði þetta að lögum. Við getum ekki unað því að allt sem við sömdum um á sínum tíma snúi aftur í formi lagasetningar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×