Innlent

Rann­saka mál sex grímuklæddra manna sem réðust á einn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglu bárust tilkynningar um að minnsta kosti þrjú umferðaróhöpp.
Lögreglu bárust tilkynningar um að minnsta kosti þrjú umferðaróhöpp. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mál þar sem sex grímuklæddir menn eru sagðir hafa ráðist á einn með höggum og spörkum. 

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu  yfir verkefni næturinnar.

Þar segir að árásarþoli hafi verið fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Einn var handtekinn í gærkvöldi eða nótt eftir að hafa gengið berserksgang og meðal annars brotið rúður. Var hann ekki viðræðuhæfur og verður vistaður þar til hægt verður að ræða við hann.

Þá segir að fjórir einstaklingar hafi verið kærðir fyrir rúðubrot.

Lögreglu barst einnig tilkynning um ágreining milli tveggja, sem endaði með því að annar beindi hnífi í átt að hinum. Ók hann svo á brott á vespu, að því er segir í yfirliti lögreglu.

Tveimur mönnum sem sváfu áfengissvefni í strætó var ekið í gistiskýli og einnig þeim þriðja sem fannst sofandi annars staðar í borginni.

Lögregla rannsakar einnig innbrot í heimahús, þar sem ýmsum verðmætum var stolið, og innbrot í verslun, þar sem fjármunir voru teknir úr afgreiðslukassa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×