Varamennirnir lögðu upp hvor fyrir annan

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Martinelli og Trossard lögðu mörk upp fyrir hvorn annan. 
Martinelli og Trossard lögðu mörk upp fyrir hvorn annan.  David Ramos/Getty Images

Arsenal sótti 2-0 sigur til Spánar, gegn Athletic, í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar. Varamennirnir Gabriel Martinelli og Leandro Trossard gerðust hetjur gestanna. Samtímis sótti USG nokkuð óvæntan sigur gegn PSV.

Fyrri hálfleikur Arsenal og Athletic var tíðindalítill en Eberechi Eze og Viktor Gyökeres fengu sitt hvort færið fyrir gestina. Sá síðarnefndi fékk síðan gat á hausinn eftir samstuð við liðsfélaga sinn Gabriel.

Gyökeres fékk ljótt gat á hausinnskjáskot sýn sport

Þegar líða fór á seinni hálfleikinn opnaðist leikurinn meira og innkoma varamannanna Martinelli og Trossard breytti öllu fyrir Arsenal.

Martinelli kom Skyttunum yfir með flottu marki á 72. mínútu, aðeins um þrjátíu sekúndum eftir að hafa komið inn á. 

Hann tók boltann vel með sér framhjá varnarmanni og afgreiddi færið snyrtilega, eftir stoðsendingu Trossard.

Trossard tvöfaldaði síðan forystuna á 87. mínútu þegar hann renndi boltanum í netið, eftir stoðsendingu Martinelli.

Þetta var annar af tveimur opnunarleikjum Meistaradeildarinnar en á sama tíma tók PSV í Hollandi á móti Union Saint-Gilloise frá Belgíu.

Gestirnir komust þar þremur mörkum yfir, þökk sé Promise David, Anour Ait El Hadj og Kevin Mac Allister. Þeir fóru svo með 1-3 sigur að lokum eftir að Ruben van Bommel klóraði í bakkann undir lokin.

Nokkuð óvæntur sigur hjá belgíska liðinu sem situr nú í efsta sæti Meistaradeildarinnar, með jafnmörg stig en fleiri mörk skoruð en Arsenal.

Fjöldi leikja er þó eftir í fyrstu umferðinni og næstu leikjum verður sparkað af stað klukkan sjö.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira