Fótbolti

Glódís ekki enn spilað á tíma­bilinu

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir lék síðast fótbolta þegar hún spilaði með Íslandi á EM í Sviss í júlí.
Glódís Perla Viggósdóttir lék síðast fótbolta þegar hún spilaði með Íslandi á EM í Sviss í júlí. Getty/Noemi Llamas

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði Íslands og Bayern München, bíður enn eftir því að hefja nýtt tímabil með Bayern vegna glímu við meiðsli. Hún gat því ekki mætt Emilíu Kiær Ásgeirsdóttur í þýsku 1. deildinni í fótbolta í dag.

Án Glódísar vann Bayern þó öruggan 3-0 útisigur á Leipzig í dag. Lena Oberdorf skoraði tvö mörk, á 10. og 57., mínútu, og Vanessa Gilles þriðja markið í lok leiks.

Emilía kom inn á hjá Leipzig þegar fimm mínútur voru til leiksloka en gat litlu breytt á þeim tíma.

Glódís hefur nú misst af fyrstu tveimur deildarleikjum Bayern sem og leiknum við Wolfsburg í þýska ofurbikarnum.

Á heimasíðu Bayern var sagt frá því að hún væri að glíma við hnémeiðsli og má ætla að þar gæti verið um að ræða sömu meiðsli og hún glímdi við á seinni hluta síðustu leiktíðar, þegar beinmar á lærisbeini, við hnéð, hélt henni frá keppni í fyrsta sinn á ferlinum.

Miðað við frétt Bayern fyrir leikinn við Leipzig í dag er Glódís þó á batavegi því ekki er sagt þar að hún sé meidd lengur heldur að hún sé eftir á í æfingum, eftir meiðsli sín.

Rúmur mánuður er í afar mikilvæga leiki íslenska landsliðsins sem spilar við Norður-Írland um að halda sér í A-deild Þjóðadeildarinnar, áður en keppt verður um HM-sæti á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×