Innlent

Göngu- og hjóla­brú við Duggu­vog opnuð síð­degis í dag

Lovísa Arnardóttir skrifar
Brúin var flutt í heilu lagi í maí og hífð upp.
Brúin var flutt í heilu lagi í maí og hífð upp. Vísir/Atli

Göngubrú yfir Sæbraut verður opnuð fyrir gangandi og hjólandi síðdegis í dag. Búið er að gera öryggisúttekt á brúnni og verða girðingar umhverfis framkvæmdasvæði fjarlægðar síðdegis í dag. Brúnni er ætlað að bæta umferðaröryggi verulega fyrir vegfarendur milli nýrrar Vogabyggðar og Vogahverfis, ekki síst fyrir skólabörn í Vogaskóla. 

„Það var lagt allt kapp á að opna göngubrúna áður en skólastarf hæfist, svo við erum mjög ánægð með að það er að takast,“ segir Sigríður Inga Sigurðardóttir hjá Vegagerðinni í svari til fréttastofu um málið.

Svona lítur brúin út að innan. Vegagerðin

Grunn- og framhaldsskólar hefja göngu sína í þessari og næstu viku. Fram kom í fréttum í vor, þegar brúin var sett upp, að vonir stæðu til þess að hægt yrði að nota hana í júní en tafir urðu á framkvæmd öryggisúttektar og var því ekki hægt að opna hana fyrr en í dag.

Brúin er alls 28 metra löng og eru við báða enda stigar og lyftur fyrir hjólandi og gangandi til að komast yfir. Göngubrúin er um miðja vegu milli gatnamóta Sæbrautar við Súðavog annars vegar og Kleppsmýrarvegar hins vegar. Með henni verður til ný gönguleið milli Dugguvogs við Tranavog og Snekkjuvogs. 

Framkvæmdin er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna og er fjármögnuð af Samgöngusáttmálanum. Vegagerðin hefur yfirumsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa.


Tengdar fréttir

Nýja göngu­brúin yfir Sæbraut fer upp í næstu viku

Áformað er að hífa nýja göngu- og hjólabrú upp í heilu lagi á Sæbraut í Reykjavík í byrjun næstu viku ef veðuraðstæður leyfa. Ætlunin er koma brúnni fyrir á stigahúsum sem reist hafa verið við Dugguvog og Snekkjuvog.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×