Enski boltinn

„Ég hélt að við værum komin lengra“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fyrirliðinn stappaði stálinu í Semenyo, sem skoraði síðan tvö mörk.
Fyrirliðinn stappaði stálinu í Semenyo, sem skoraði síðan tvö mörk. (AP Photo/Ian Hodgson)

Antoine Semenyo, leikmaður Bournemouth, varð fyrir kynþáttaníði af hálfu áhorfanda á Anfield í opnunarleik liðsins gegn Liverpool. Borin voru kennsl á sökudólginn strax og hann var fjarlægður úr stúkunni af lögreglu.

„Antoine lét dómarann strax vita, hann sagði okkur frá því sem gerðist og það er búið að bera kennsl á sökudólginn. Því miður halda þessir hlutir áfram að gerast.

Fyrsti leikur tímabilsins, frábær fótboltaleikur en við verðum að tala um svona hluti eftir á, það er mikil synd“ sagði þjálfari Bournemouth, Andoni Iraola. 

Fyrirliði liðsins, Adam Smith, tók í sama streng og var jafnvel enn ósáttari.

„Algjörlega óásættanlegt. Sjokkerandi að þetta skuli enn gerast, ég hélt að við værum komin lengra. Ég skil ekki hvernig hann gat haldið áfram að spila og skora síðan…

Ég hefði viljað sjá hann hlaupa í átt að stúkunni eftir að hann skoraði, ég hefði gert það, en þetta sýnir bara hvers konar maður hann er. Að tilkynna atvikið til dómara og halda svo áfram að spila, fagmaður“ sagði fyrirliðinn en Antoine Semenyo skoraði bæði mörk Bournemouth og jafnaði leikinn áður en Liverpool vann endurkomusigur.

https://www.visir.is/g/20252762648d/i-beinni-liverpool-bournemouth-veislan-hefst-a-anfield

Arne Slot, þjálfari Liverpool, tjáði sig einnig um málið eftir leik og sagðist alls ekki vilja sjá rasisma á Anfield.

„Augljóslega viljum við ekki sjá þetta í fótboltanum og við viljum alls ekki sjá þetta á Anfield. Því miður varð þetta hluti af sögu leiksins, sem átti að snúast um minningarstund Diogo Jota“ sagði þjálfari Liverpool, Arne Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×