Innlent

Lang­flestir telja sig búa á góðum stað fyrir sam­kyn­hneigða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá gleðigöngunni sumarið 2023. Hún verður gengin nú um helgina.
Frá gleðigöngunni sumarið 2023. Hún verður gengin nú um helgina. Vísir/Sigurjón

Níu af hverjum tíu landsmönnum telja sig búa á stað sem er góður staður fyrir samkynhneigða. Hlutfallið hefur hækkað lítillega undanfarinn áratug.

Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem framkvæmdur var í lok júní og fyrri hluta júlí.

Spurt var:

Er svæðið sem þú býrð á góður eða slæmur staður til að búa á fyrir samkynhneigða?

Niðurstöður þjóðarpúls Gallups.

Ríflega 89 prósent svöruðu því til að staðurinn væri að öllu leyti góður, mjög góður eða frekar góður samanborið við 86 prósent árið 2015. Hátt í þriðjungur tók ekki afstöðu til spurningarinnar og sagðist ekki vita það.

Yngra fólk telur sig frekar en eldra búa á góðum stað fyrir samkynhneigða. Þau sem kysu Viðreisn ef kosið yrði til Alþingis í

dag eru líklegri en þau sem kysu aðra flokka til að telja sig búa á góðum stað fyrir samkynhneigða á meðan þau sem kysu Flokk fólksins eru ólíklegri til þess en þau sem kysu aðra flokka. Ekki kemur fram munur á svörum fólks eftir því hvar á landinu það býr.

Þau sem telja sig helst búa á slæmum stað fyrir samkynhneigða eru þau sem hafa ekki lokið framhaldsmenntun, þau sem hafa lægstar fjölskyldutekjur og þau sem skiluðu auðu ef kosið yrði til Alþingis eða kysu annan flokk en þá sem eiga sæti á þingi.

Af tæplega 80 svarendum sem eru samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, trans eða hinsegin á annan hátt segjast allir búa á stað sem er góður staður til að búa á fyrir samkynhneigða fyrir utan þrjá sem segja hvorki né.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×