Innlent

Stúlka flutt á sjúkra­hús eftir fall í sjóinn við Reynisfjöru

Agnar Már Másson skrifar
Afar hvasst er á Suðurlandi þar sem gul viðvörun var í gildi í gær. Mynd úr safni.
Afar hvasst er á Suðurlandi þar sem gul viðvörun var í gildi í gær. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Barnung stúlka sem féll í sjóinn við Reynisfjöru í dag er fundin og hefur verið flutt á sjúkrahús í Reykjavík. Um erlenda ferðamenn er að ræða.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, björgunarskipið Þór og björgunarsveitir voru kallaðar út skömmu fyrir þrjú eftir að einstaklingur fór í sjóinn við Reynisfjöru í Mýrdalnum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er um barnunga stúlku að ræða. Faðir og tvær systur hafi farið í sjóinn. Faðirinn og önnur stúlkan komist í land en ekki hin.

Lögreglan á Suðurlandi skrifar nú á Facebook að um erlenda ferðamenn sé að ræða.

„Þyrla Landhelgisgæslunnar fann manneskjuna sem hafnaði í sjónum við Reynisfjöru fyrr í dag. Verið er að flytja viðkomandi á sjúkrahús í Reykjavík en ekki er vitað um ástand. Um er að ræða barnunga stúlku sem var á ferð með fjölskyldu sinni, þau eru erlendir ferðamenn.“

Þyrla gæslunnar lenti á Reykjavíkurflugvelli upp úr klukkan 17, samkvæmt flugkortagögnum.

Lögreglan, björgunarsveitir og björgunarskipið Þór voru einnig kölluð út og var mikill viðbúnaður á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×