Innlent

Þyrlan farin vestur í hvítabjarnareftirlit

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Hvítabjörn á hafís norður af Svalbarða.
Hvítabjörn á hafís norður af Svalbarða. Vísir/Getty

Þyrla Landhelgisgæslunnar lagði af stað vestur á firði á tíunda tímanum í morgun þar sem hún mun sinna hvítabjarnareftirliti í samstarfi við lögregluna á Vestfjörðum.

Í gær var greint frá því að lögreglunni á Vestfjörðum hefði borist myndband frá fiskiskipi um 50 sjómílum norðvestur út af Straumnesi á Hornströndum, þar sem sást til hvítabjarnar. 

Myndbandið væri þriggja vikna gamalt en óvíst hver tildrög hvítabjarnarins væru og ljóst að þeir gætu synt langar leiðir.

„Við vorum í raun og veru að bíða eftir besta tækifærinu með tilliti til útkalla og annars. Það var tekin ákvörðun í morgun að þetta væri besta leiðin að fara í dag,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við fréttastofu.

„Það er langt síðan þetta myndband var tekið, en við erum bara að ganga úr skugga um að enginn hvítabjörn hafi stigið á land.“

Áherslan verði lögð á Hornstrandir og hugsanlega strandir, og leit muni sennilega taka um þrjár klukkustundir.

Hér má sjá myndbandið sem tekið var á fiskiskipinu Kristrún RE 177 fyrir þremur vikum


Tengdar fréttir

Ísbjarnareftirlit á Vestfjörðum

Lögreglan á Vestfjörðum og Landhelgisgæslan eru nú í ísbjarnareftirliti, einkum yfir Hornströndum vegna myndbands sem lögreglunni barst í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×