Innlent

Tveggja katta enn saknað eftir elds­voða á Tryggva­götu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Chewie og Freddie eru enn týndir.
Chewie og Freddie eru enn týndir. Dýrfinna

Fjórir af sex köttum sem saknað er eftir eldsvoða í íbúð á Tryggvagötu aðfaranótt laugardags eru fundir. Tveggja er enn saknað og vinna sjálfboðaliðar að leitinni.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út aðfaranótt laugardags eftir að eldur kviknaði í íbúð við Tryggvagötu í miðborg Reykjavíkur. Einn einstaklingur var í íbúðinni, sem er á efstu hæð hússins, en hann hafði komið sér út er slökkviliðið bar að garði. Einn var fluttur á slysadeild vegna hugsanlegrar reykeitrunar.

Sex kettir voru í húsinu er kviknaði í og hafa sjálfboðaliðar á vegum Dýrfinnu leitað að þeim síðan.

„Við erum búin að vera síðasta sólarhringinn að leita af köttum sem voru inni í húsinu í miðbæ Reykjavíkur. Við fengum fyrst ábendingu um einn kött frá íbúa sem að hafði hlaupið í vélarrúm á bíl og er búið að ná honum. Þá fengum við ábendingu um að þarna inni væru sex aðrir kettir og síðasta sólarhringinn erum við búin að ná fjórum, síðasti kom inn í fellibúr rétt fyrir miðnætti. Tveggja er enn saknað,“ segir Eygló Anna Ottesen, sjálfboðaliði hjá Dýrfinnu.

Ekki liggur fyrir hvort að allir kettirnir hafi náð að koma sér út er kviknaði í.

„Við fáum engin svör hvort það sé einhver látinn inni eða ekki en við höldum áfram að leita þangað til við fáum frekari upplýsingar,“ segir Eygló.

Hún biðlar til almennings að hafa samband við Dýrfinnu símleiðis eða með skilaboðum á samfélagsmiðlum sjái þeir til kattanna tveggja, Chewie og Freddie.

„Þetta er einn loðinn appelsínugulur og einn svartur með græn augu. Þeir ættu í rauninni ekki að fara langt en þeir eru vonandi enn á lífi að fela sig einhvers staðar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×