Knattspyrnusamband Íslands sýndi skemmtileg myndbrot af æfingu íslenska liðsins á samfélagsmiðlum sínum og þar fór ekkert á milli mála að það var mjög heitt í Serbíu á þessum miðvikudegi.
„Vá, hvað er heitt,“ sagði reynsluboltinn Dagný Brynjarsdóttir þegar hún kom út í sólina.
„Það er helvíti heitt en Alex elskar hita,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og tók utan um Alexöndru Jóhannsdóttur sem var auðvitað ekkert að kvarta.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari ætlaði aftur á móti ekkert að pína þær of lengi út í hitanum.
„Aðeins styttri æfing en vanalega og höfum hana svolítið snarpa,“ sagði Þorsteinn.
Þegar leið á æfinguna þá var sumum orðið mjög heitt. Ein af þeim sem voru að kafna úr hita var markvörðurinn Telma Ívarsdóttir. Hún var alveg búin á því eftir hörkuskotæfingu.
„Kannski á Íslandi en ekki hérna úti í fjörutíu gráðum. Veistu, ég get eiginlega ekki meir,“ sagði Telma.
„Þið eruð forréttindahópur að fá að taka þátt í lokakeppni EM og þið eigið að njóta þess alveg í gegn,“ sagði Þorsteinn við lok æfingarinnar.
Stelpurnar drifu sig svo inn úr sólinni eftir æfingu og fóru í kaldan pott. Flestar fóru varlega og bara með neðri hluta skrokksins ofan í pottinn en ekki Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.
Karólína Lea hikaði ekki við að fara á bólakaf ofan í kalda pottinn og virðist líka koma liðsfélaga sínum á óvart með því.
Hér fyrir neðan má sjá þessa skemmtilegu innsýn í æfingu íslensku stelpnanna í dag.