Innlent

Sendir í leyfi fyrir að vinna ekki nógu mikið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Af þeim 160 flugumferðarstjórum sem eru í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra starfa 100 hjá Isavia ANS.
Af þeim 160 flugumferðarstjórum sem eru í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra starfa 100 hjá Isavia ANS. Vísir/Vilhelm

Fimm flugumferðarstjórar hafa verið sendir í leyfi frá störfum vegna gruns um að þeir hefðu ekki unnið tilskilinn fjölda vinnustunda til að halda réttindum sínum. Samgöngustofa rannsakar mál þeirra.

Í samtali við fréttastofu segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að málið varði fimm flugumferðarstjóra, og hafi komið upp eftir að ráðist var í skoðun á tímaskráningu þeirra. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu.

Samkvæmt reglum þurfa flugumferðarstjórar að vinna lágmarksfjölda tíma í svokallaðri vinnustöðu, svo þeir haldi hæfi sínu til starfans. 

Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu segir að hjá Isavia ANS, sem er dótturfélag Isavia sem annast flugleiðsög hér á landi og yfir Norður-Atlantshafi, starfi 100 flugumferðarstjórar, af þeim 160 sem séu í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra.

Þar er haft eftir Kjartani Briem, framkvæmdastjóra félagsins, að málið hafi verið tilkynnt til Samgöngustofu og flugumferðarstjórarnir fimm verið sendir í ótímabundið leyfi.

„Isavia ANS sinnir flugleiðsögu á Íslandi og yfir Norður-Atlantshafi og hefur veitt þessa þjónustu um áratugaskeið. Öll frávik frá hefðbundinni starfsemi sem koma upp eru tekin alvarlega og er fyrirtækið með ferla til að kanna þau og vinna að úrbótum.

Skýrar reglur gilda um hæfi flugumferðarstjóra og þurfa þeir að uppfylla ýmis skilyrði til að viðhalda sínu hæfi. Eitt af þeim er lágmarkskrafa um setu í vinnustöðu,“ er haft eftir Kjartani. Isavia ANS muni ekki tjá sig frekar um málið meðan rannsókn stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×