Fótbolti

Fjór­tán slösuðust þegar ekið var á á­horf­endur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Konan sem ók bílnum var handtekin á staðnum. 
Konan sem ók bílnum var handtekin á staðnum. 

Fjórtán einstaklingar slösuðust þegar bíl var ekið inn í áhorfendaskara fyrir utan RCDE leikvanginn, nokkrum mínútum eftir að leikur Espanyol og Barcelona hófst í gærkvöldi.

Hvítum bíl var ekið á áhorfendur sem höfðu safnast saman fyrir utan leikvanginn. Konan sem ók bílnum var handtekin á staðnum og málið er til rannsóknar hjá lögreglu. Hún er 34 ára gömul og var ekki undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Forseti Katalóníu, Salvador Illa, sagði í gærkvöldi ekkert benda til þess að þetta hafi verið viljandi árás. Marca greinir frá því að lögreglan sé að rannsaka málið sem slys.

Aðeins átta mínútur voru liðnar af leiknum, sem var stöðvaður eftir að atvikið átti sér stað. Fjöldi áhorfenda fór úr sætum sínum og vildi aflýsa leiknum, en hann hélt áfram eftir nokkrar mínútur. Barcelona vann 0-2 og tryggði sér spænska meistaratitilinn.

Sjö sjúkrabílar mættu á svæðið og hlúðu að einstaklingunum sem slösuðust, enginn þeirra er í lífshættu. Fréttastofur erlendis greindu upphaflega frá því að þrettán hafi slasast, en yfirlögreglustjórinn Eduard Sallent greindi frá því á blaðamannafundi eftir leik að fjórtán hafi slasast. 

Espanyol sendi frá sér yfirlýsingu skömmu eftir miðnætti þar sem segir að félagið sé til staðar fyrir alla slasaða og alla stuðningsmenn sem gætu hafa hlotið skaða af.


Tengdar fréttir

Barcelona Spánar­meistari

Barcelona er Spánarmeistari karla í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á nágrönnum sínum í Espanyol. Það var við hæfi að Lamine Yamal, nýjasta ofurstjarna Börsunga, var allt í öllu með mark og stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×