Fótbolti

Mark­vörðurinn mætti of seint í leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Kinn lék áður með Wolverhampton Wanderers í Englandi en er nú kominn til Noregs.
Thomas Kinn lék áður með Wolverhampton Wanderers í Englandi en er nú kominn til Noregs. Getty/ Jack Thomas

Liðsfélagi íslenska knattspyrnumannsins Hilmis Rafns Mikaelssonar í Viking missti sæti sitt í byrjunarliðinu á afar klaufalegan hátt þegar liðið mætti Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni um helgina.

Thomas Kinn átti að byrja í marki Viking í leiknum en samkvæmt frétt hjá staðarblaðinu Stavanger Aftenblad þá mætti hann of seint í leikinn sem var á heimavelli Viking. Það má lesa um þetta hér fyrir þá sem hafa aðgang.

Þjálfarnir Bjarte Lunde Aarsheim og Morten Jensen létu ekki bjóða sér það og settu Kinn á bekkinn.

Arild Östbö spilaði leikinn í hans stað og hélt marki sínu hreinu. Östbö er 34 ára gamall reynslubolti og lét þetta ekki koma sér úr jafnvægi. Það verður síðan að koma í ljós hvort Thomas Kinn komist aftur í byrjunarliðið.

Kinn er 26 ára gamall og var búinn að spila fimm síðustu deildarleikin á undan. Hann fékk samt á sig níu mörk í þeim og tókst ekki að halda marki sínu hreinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×