Innlent

Borgar­stjóri sé brennu­vargur en Fram­sókn í slökkvi­liðinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Einar Þorsteinsson er oddviti Framsóknar í borginni.
Einar Þorsteinsson er oddviti Framsóknar í borginni. Vísir/Vilhelm

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarmanna í borginni og fyrrverandi borgarstjóri, ætlar greinilega ekki að láta fólk gleyma því hver stýrði borginni á síðasta ári. Tíu milljarða viðsnúningur varð á A-hluta borgarinnar á milli ára. Hann segir núverandi borgarstjóra vera „brennuvarg“ í fjármálum borgarinnar.

„Frábært en ekki óvænt að sjá góðan rekstrarafgang hjá borginni á því ári sem við í Framsókn stýrðum borginni. Tæplega 10 milljarða viðsnúningur og nærri 5 milljarða afgangur!“ skrifar Einar á Facebook.

Einar var borgarstjóri í samstarfi Framsóknar við Samfylkingu, Pírata og Viðreisn frá sumrinu 2022, þar til í febrúar síðastliðnum. Þá sleit hann meirihlutasamstarfinu. Í kjölfarið mynduðu fimm flokkar meirihluta án Einars og Framsóknar.

Þrátt fyrir góðan árangur, sem Einar vill tengja beint við borgarstjóratíð sína, segir hann að meira þurfi að gera. 

„Áfram þarf að bæta þjónustu við íbúa og tryggja að borgin eigi fyrir fjárfestingum í leik- og grunnskólum, samgöngumálum, íþróttum og menningu. Á sama tíma er hjákátlegt að sjá brennuvargana í fjármálum borgarinnar, borgarstjóra Samfylkingarinnar sem neitaði að skera niður, halda blaðamannfund til að kynna árangurinn eftir að Framsókn tókst að slökkva eldana,“ skrifar Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×