Afmælisdagur systranna virðist hafa verið afar viðburðarríkur en þær fóru meðal annars með vinkonum sínum í Disneyland-garðinn í Kaliforníu, í Pilates tíma og gæddu sér á ljúffengum hamborgurum frá skyndibitakeðjunni In-N-Out.
Um kvöldið var þeim fagnað með glæsilegri veislu utandyra þar sem þær skáluðu fyrir tímamótunum og blésu á köku í rökkrinu. Systurnar klæddust báðar fallegum ljósum dressum og báru afmæliskórónur með nafni þeirra á höfði.
Júnía og Laufey eru eineggjatvíburar, bestu vinkonur og samstarfsfélagar. Það kemur því ekki á óvart að þær hafi ákveðið að fagna deginum saman, þrátt fyrir að búa í sitthvoru landinu, en Júnía býr í Bretlandi og Laufey í Bandaríkjunum.





