Flest Evrópuríki, Bandaríkin og Japan rötuðu á listann sem forsætisráðherra Rússlands staðfesti fyrr í þessum mánuði. Ríkin eru þar sögð aðhyllast „nýfrjálshyggju“ sem stangist á við hefðbundin rússnesk andleg og siðferðisleg gildi.
Einu Evrópusambandsríkin sem lentu ekki á listanum voru Ungverjaland og Slóvakía þar sem stjórnvöld hafa gagnrýnt stefnu sambandsins gagnvart Úkraínu og Rússlandi eftir innrás Rússa.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segist utanríkisráðuneytið ekki getað vita hvaða gildi það eru sem stjórnvöld í Kreml vísa til.
„Ísland hefur alþjóðalög að leiðarljósi hvívetna og hefur, eins og kunnugt er, ítrekað hvatt rússnesk stjórnvöld til að láta af ólöglegu landvinningastríði sínu í Úkraínu,“ segir í svarinu.
Rússneski listinn var birtur í kjölfar forsetatilskipunar Vladímírs Pútín um að veita vesturlandabúum sem hafna „skaðlegum nýfrjálshyggjuhugmyndum“ sem stangast á við hefðbundin rússnesk gildi tímabundið hæli í Rússlandi.
Samkvæmt tilskipunni taka rússnesk stjórnvöld við þessum hugmyndafræðilegum flóttamönnum fyrir utan almennan flóttamannakvóta. Hælisleitendurnir þurfa heldur ekki að sýna fram á þekkingu á rússnesku, rússneskri sögu eða lögum og umsóknir þeirra fá flýtimeðferð.
Vera Íslands á listanum virðist þannig þýða að íslenskum andstæðingum nýfrjálshyggju standi til boða að setjast að í Rússlandi.