Þetta segir í skriflegu svari Lögreglunnar á Vestfjörðum við spurningum Vísis um málið. Vísi barst ábending um að maður hefði verið handtekinn eftir að hafa ógnað grunnskólabörnum með hnífi á Ísafirði.
Í svari lögreglunnar fyrir vestan segir að maðurinn hafi verið með vasahníf í fórum sínum en að sögn vitna hafi hann ekki beinlínis ógnað nærstöddum með hnífnum en þó virst vera í andlegu ójafnvægi.
Lögregla hafi kallað til lækni til að skoða og meta ástand mannsins og í kjölfarið hafi hann verið fluttur á viðeigandi heilbrigðisstofnun í Reykjavík.
„Starfsfólk grunnskólans brást hárrétt við með því að kalla eftir aðstoð lögreglu og hringja í Neyðarlínuna, 112. Enda um óvenjulegar aðstæður að ræða, maður í andlegu ójafnvægi. Alltaf gott að vera vel vakandi fyrir óvenjulegum aðstæðum og gæta varúðar.“