Innlent

Óttast að enginn hvalur verði veiddur þrátt fyrir leyfið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir ákvörðun matvælaráðherra koma of seint.
Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir ákvörðun matvælaráðherra koma of seint. Vísir/Vilhelm

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, óttast að enginn hvalur verði veiddur á þessu ári þrátt fyrir leyfisveitingu matvælaráðherra.

„Ég tel því miður að þetta sé alltof seint. Ég held að þessi vinnubrögð hafi verið uppsett til þess að reyna koma í veg fyrir að þessar veiðar gætu orðið í ár. Það er einfaldlega vegna þess að veiðarnar ættu að öllu jöfnu að vera byrjaðar,“ segir Vilhjálmur í samtali við fréttastofu.

„Ég óttast það innilega að það fólk sem var að bíða eftir svari hafi einfaldlega verið búið að ráðstafa sér eitthvert annað.“

Líkt og áður segir veitti matvælaráðherra Hvali hf. leyfi til veiða á Langreyðum.

„Leyfið gildir fyrir veiðitímabilið 2024 og verður leyfilegt veiðimagn 99 dýr á svæðinu Grænland/Vestur-Ísland og 29 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar eða samtals 128 dýr,“ segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Vilhjálmur segir að tíminn til að fara að veiða sé of skammur. Fyrirtæki líkt og Hvalur væri yfirleitt búið að ganga frá mannaráðningum, bæði á skip og á plani, í apríl. Þá hafi veiðar yfirleitt hafist skömmu eftir sjómannadaginn, en nú sé kominn miður júní.

„Það er ekkert fyrirtæki á Íslandi. Það er engin atvinnustarfsemi sem getur búið við svona óvissu. Það getur engin atvinnustarfsemi fengið að vita hvort starfsemi sé heimiluð eða ekki með alltof stuttum fyrirvara, og það einungis til eins árs,“ segir Vilhjálmur.

„Þetta er ekki hægt, einfaldlega vegna þess að það þarf að panta og kaupa aðföng erlendis frá sem eru oft á tíðum mjög dýr, það þarf að setja skipin í slipp og svo framvegis. Það er ekkert fyrirtæki sem ræðst í slík fjárútlát án þess að hafa einhvern fyrirsjáanleika í sinni starfsemi.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×