Innlent

„Þetta er bara strang­heiðar­leg jarð­skjálfta­hrina“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ástæða hrinunnar er sennilega niðurdæling vatns að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.
Ástæða hrinunnar er sennilega niðurdæling vatns að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni. Vísir/Vilhelm

Skjálftavirkni á Hengilssvæðinu er ekkert annað en strangheiðarleg jarðskjálftahrina, sem stafar sennilega af niðurdælingu frá Hellisheiðarvirkjum, að sögn sérfræðings. Fólk fylgist vel með vef Veðurstofunnar og því hafa vaknað spurningar um virknina. 

Frá klukkan fjögur í nótt hafa mælst um 90 jarðskjálftar á Hengilssvæðinu.

„Þetta er bara strangheiðarleg jarðskjálftahrina. Við höfum séð þær margar þarna í Húsmúla. Þetta er yfirleitt af völdum niðurdælinga. Afleiðing þess að vatni er dælt niður eftir að það hefur verið nýtt í jarðvarmavirkjunina á Hellisheiðinni,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Skjálftarnir hafa allir verið undir tveimur að stærð og því einkar ólíklegt að fólk hafi fundið fyrir þeim. Veðurstofan hefur ekki fengið neinar tilkynningar um slíkt.

Salóme segir fólk þó fylgjast vel með vef Veðurstofunnar vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.

„Þess vegna höfum við fengið fyrirspurnir um þetta en þetta er bara ósköp eðlileg virkni sem við höfum séð áður.“

Um 50 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti, samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum mælinga Veðurstofunnar, en þeir hafa allir mælst undir tveimur að stærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×