Erlent

Óttast um af­drif ríf­lega hundrað eftir aurskriðu

Árni Sæberg skrifar
Aurskriðan var stór.
Aurskriðan var stór. EPA-EFE/NINGA ROLE

Talið er að ríflega eitt hundrað gætu hafa farist þegar aurskriða féll á þorp í Papúa Nýju-Gíneu í nótt.

Í frétt Reuters um málið segir að engar dánartölur hafi verið gefnar út opinberlega en hefur eftir ástralska ríkisútvarpinu að talið sé að um og yfir eitt hundrað hafi látið lífið í aurskriðunni. Staðarmiðlar greina svo frá því að íbúar svæðisins óttist að tala látinna sé hærri.

Aurskriðan hafi fallið um klukkan 03 í nótt að staðartíma, um klukkan 16 í gær að íslenskum tíma, á þorpið Kaokalam, sem sé um 600 kílómetra frá höfuðborginni Moresbyhöfn.

„Við erum að senda varnarlið og fulltrúa frá innviðaráðuneytinu til þess að ræða við embættismenn svæðisins og hefja björgunarstarf og endurreisn innviða. Ég mun gefa út nánari upplýsingar þegar ég hef verið almennilega upplýstur um umfang eyðileggingarinnar og mannfall,“ er haft eftir James Marape, forsætisráðherra landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×