Innlent

Grunaður um kyn­ferðis­brot gegn stjúp­dóttur sinni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barnungri stjúpdóttur sinni sem hann er sakaður um að hafa framið á heimili þeirra.

Manninum er gefið að sök að slá stúlkuna í fjölda skipta á rassinn, og í eitt skipti nuddað rass hennar og læri.

Í ákærunni sem fréttastofa hefur undir höndum hafa einhverjar upplýsingar verið teknar út. Svo virðist sem meint brot mannsins hafi verið framin á einhverju tímabili, en ekki liggur fyrir hversu langt það tímabil er. Þó virðist sem um margra mánaða skeið sé að ræða, jafnvel nokkurra ára.

Þá kemur ekki fram hversu gömul stúlkan var þegar brotin voru framin, en maðurinn er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni.

Fyrir hönd stúlkunnar er tveggja milljóna króna miskabóta krafist.

Það er embætti héraðssaksóknara sem höfðar málið og krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×