Innlent

Mynd­band sýnir þjófana í Hamra­borg hafa lítið fyrir hlutunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þjófarnir búnir að brjótast inn í lítinn sendiferðabíl Öryggismiðstöðvarinnar og að flytja peningatöskurnar inn í Toyota Yaris bílinn.
Þjófarnir búnir að brjótast inn í lítinn sendiferðabíl Öryggismiðstöðvarinnar og að flytja peningatöskurnar inn í Toyota Yaris bílinn.

Þjófarnir í Hamraborgarmálinu voru rúmar þrjátíu sekúndur að brjótast inn í peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar, færa peningatöskur yfir í eigin bíl og bruna í burtu með tuttugu til þrjátíu milljónir króna í fórum sínum. Þetta sýnir myndband sem komið er í dreifingu og barst fréttastofu. Margar mínútur liðu áður en upp komst um glæpinn.

Starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar voru nýbúnir að tæma spilakassana á Videomarkaðnum í Hamraborg í Kópavogi sem ekki er hægt að segja að beri nafn með rentu. Þó hér sé hægt að kaupa sér pylsu og kók þá snýst reksturinn ekki um videospólur. Í rýminu er eitt stærsta spilavíti landsins. Staðurinn hefur leyfi fyrir 49 gestum en býður upp á tæplega hundrað spilakassa. Hér spilar fólk frá sér peningunum sínum, sem í mörgum tilfellum eru bótagreiðslur frá ríkinu, og milljónirnar safnast í kassana.

Staðurinn er gríðarlega vinsæll meðal spilakassaáhugafólks sem mikið til eru spilafíklar. Til marks um vinsældirnar hafa sjö af síðustu átta gullpottum fallið hjá Videomarkaðnum. Samanlagt rúmlega sextíu milljónir króna.

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Fréttatímann í heild má sjá að neðan:

Lífið gekk sinn vanagang í Hamraborginni

24 dagar eru liðnir síðan tveir grímuklæddir menn virtust hafa afskaplega lítið fyrir því að framkvæma líklega mesta þjófnað á reiðufé í sögu landsins. Klukkan var korter yfir níu á mánudagsmorgni þegar mennirnir létu til skarar skríða. Öryggisverðir Öryggismiðstöðvarinnar gengu inn á veitingastaðinn Catalinu til að tæma spilakassasal og á meðan stóð bíllinn, lítill sendiferðabíll, fyrir utan.

Þjófarnir í Hamraborg virðast ekki hafa þurft mikla kunnáttu til að stela peningunum. Þeim tókst á örfáum sekúndum að brjótast inn í öryggisbílinn, flytja sjö töskur yfir í stolna Toyota Yaris bifreið og bruna í burtu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu liðu um sjö mínútur frá frá því þjófarnir yfirgáfu svæðið þar til starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar komu út af Catalinu. Þeir höfðu ekki hugmynd um á hverju hafði gengið fyrir utan. Lífið gekk sinn vanagang í Hamraborginni og enginn virtist taka eftir neinu. Lögregla fékk því ekki veður af þjófnaðinum fyrr en löngu eftir að þjófarnir brunuðu í burtu.

Fólk hafi auga með bláum peningaseðlum

Athygli vekur að fregnir af þjófnaðinum rötuðu ekki í fjölmiðla fyrr en sólarhring síðar. Auglýst var eftir bílnum samdægurs en ekki kom í ljós hvers vegna fyrr en daginn eftir.

„Í sjálfu sér eru þetta eðlileg viðbrögð lögreglu. Við gáfum upplýsingar til fjölmiðla á þeim tíma sem við töldum réttastan tíma, sem var sólarhring síðar,“ segir Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson rannsóknarlögreglumaður.

„Það kann að vera að við hefðum átt að fara með þetta aðeins fyrr út. En þarna töldum við réttast að gera þetta sólarhring seinna.“

Aðalsteinn segir engan með stöðu sakbornings í málinu, bíllinn er ófundinn og peningarnir sömuleiðis. Engar upplýsingar eru um að peningarnir séu komnir úr landi. Aftur á móti eru vísbendingar um að litasprengja í peningatösku hafi sprungið og því gætu sést litaðir peningar í umferð.

„Við erum þá að tala um litaða peninga sem eru bláir að lit. Það er rétt að vekja athygli á því ef einhverjir slíkir peningar færu í umferð, að láta lögreglu vita.“

Um er að ræða alls konar notaða peninga seðla, allt frá fimm hundruð krónum og upp úr. Engir slíkir seðlar með bláum lita hafa þó enn sést.

Hinn handtekni ekki lengur grunaður

Lögregla handtók einn karlmann daginn sem þjófnaðurinn átti sér stað. Aðalsteinn Örn segir viðkomandi þann eina sem hefur haft stöðu sakbornings við rannsókn málsins.

„Sá aðili er ekki með stöðu sakbornings í dag,“ segir Aðalsteinn. Samkvæmt heimildum fréttastofu á maðurinn sakarferil að baki og því líklegri en margur að eiga aðild að brotastarfsemi. Það reyndist ekki á rökum reist.

„Það tafði ekki fyrir rannsókninni. Sú vísbending sem við fórum þar eftir. Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um það atvik. Hann er ekki sakborningur í dag og tengist málinu ekki að við teljum.“

Auk þess hefur verið rætt við fólk sem hafi stöðu vitnis.

Toyota Yaris bíll var notaður við þjófnaðinn. Stolnum númeraplötum hafði verið komið fyrir framan og aftan á bílnum.

„Sá bíll er enn ófundinn. Við erum að leita að þeim bíl sem er Toyota Yaris, grár, og fólk má hafa enn í huga að það er ekkert að því að hringja í okkur og tilkynna um slík ökutæki.“

Öryggismiðstöðin svarar ekki spurningum

Lögregla lýsti eftir mönnunum daginn eftir þjófnaðinn og birti mynd af þeim í Yaris-num. Sú mynddreifing hefur ekki dugað til að bera kennsl á mennina þó sjáist í drjúgan hluta andlita þeirra. Það bendir til þess að þeir hafi ekki sterk tengsl við íslenskt samfélag.

Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson segir rannsókn lögreglu í fullum gangi. Hann hvetur fólk til að hafa augun hjá sér varðandi blámerkta peningaseðla og sömuleiðis gráan Toyota Yaris.Vísir/EinarÁrna

Aðalsteinn Örn segir lögreglu hafa kannað öryggismyndavélar á Keflavíkurflugvelli þegar málið kom upp.

„Við skoðuðum Keflavíkurflugvöll sérstaklega á þeim tíma þegar við vorum að byrja rannsóknina. Við höfum engar upplýsingar um að þessir peningar séu komnir úr landi,“ segir Aðalsteinn Örn.

Hann leggur áherslu á að þó þjófarnir séu ófundnir sé rannsókn í fullum gangi. Lögregla hafi vísbendingar til að vinna úr og markmiðið sé að upplýsa málið.

Margar spurningar vakna varðandi verklag Öryggismiðstöðvarinnar við flutning á svo miklu fé. Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri hjá Öryggismiðstöðinni, segist ekki vilja veita viðtal vegna málsins fyrr en rannsókn þess er lokið.

Fá dæmi um óupplýst mál

Aðalsteinn minnir á að flest mál á borð við þetta, sem þó megi heita sérstakt í ljósi þess hve háa upphæð ræðir, upplýsist á endanum. Nýlegar undantekningar, ef nýlegar má kalla, eru ránið í Búnaðarbankanum á Vesturgötu í desember 1995. Mennirnir sem rændu Búnaðarbankann voru klæddir í samfestinga með lambhúshettur. Tveir þeirra voru vopnaðir hnífum og sá þriðji haglabyssu. Atlagan er sögð aðeins hafa tekið um eina mínútu.

Ræningjarnir komust á brott með tæpar tvær milljónir í reiðufé, sem í dag eru um sjö milljónir. Mun lægri upphæð en var stolið í Hamraborginni þó málið hafi vakið miklu meiri athygli. Málinu svipaði til Hamraborgarmálsins að því leyti að verknaðurinn tók afar skamma stund, ránsféð var reiðufé og ræningjarnir flúðu á bílum með stolunum númeraplötum. Málið telst óupplýst.

Þá tókst einhverjum bíræfnum að stela eina milljón króna úr útibúi Landsbankans á Borgarfirði eystra um Verslunarmannahelgina árið 1991. Einn milljón þá eru tæpar fjórar milljónir króna á verðlagi dagsins í dag.

Lengi vel leit út fyrir rán í útibúi Íslandsbanka við Lækjargötu í ársbyrjun 1995 yrði aldrei upplýst. Tveir starfsmenn Skeljungs voru á leið í útibú Íslandsbanka við Lækjargötu að skila þangað helgaruppgjöri, um sex milljónum króna eða 21,5 á gengi dagsins í dag. Þrír hettuklæddir menn, klæddir bláum vinnugöllum, réðust að starfsmönnunum og barði einn hettuklæddu mannanna annan starfsmanninn í höfuðið með slökkvitæki með þeim afleiðingum að hann féll í götuna.

Lögreglu varð ekkert ágengt í rannsókn málsins og var það ekki fyrr en árið 2003 þegar fyrrverandi sambýliskona eins þjófsins leitaði til lögreglu í kjölfar umfjöllunar um málið í Sönnum íslenskum sakamálum. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×