Maðurinn vildi að íslensk stjórnvöld myndu hafna beiðni um afhendingu hans, og gaf fyrir því nokkrar ástæður. Til að mynda sagði hann að mál þetta hefði verið fellt niður gagnvart öðrum einstaklingum sem hefðu verið grunaðir í málinu. Þá sagðist maðurinn ekki hafa verið viðstaddur þegar brotin voru framin.
Þar að auki vísaði hann til þess að handtökuskipunin væri sex mánaða gömul, og því gæti staða málsins verið gjörbreytt. Rétt væri fyrir íslensk stjórnvöld að kanna stöðuna á málinu áður en samþykkt yrði að afhenda hann.
Þá sagðist maðurinn hafa orðið fyrir höfuðhöggi. Áverkar hans væru þess eðlis að hann gæti ekki ferðast með flugi.
Einnig minntist maðurinn á að tvö mál væru rekin gegn honum hér á landi. Rannsókn þeirra mála væri ólokið og því væri ekki unnt að afhenda hann til Póllands.
Héraðsdómur Reykjaness féllst ekki á þessi rök mannsins. Ekki væru haldbær rök fyrir því að synja ætti afhendingunni. Því samþykkti dómurinn að afhenda hann til Póllands. Landsréttur staðfesti síðan þann úrskurð og vísaði til úrlausnar héraðsdóms.