Innlent

„Við þurfum að fá ein­hver við­brögð“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þeir Magnús og Guðmundur báru sigur úr býtum í Starssborg í dag.
Þeir Magnús og Guðmundur báru sigur úr býtum í Starssborg í dag. skjáskot

Guðmundur Gunnarsson og Magnús D. Norðdahl, sem kvörtuðu til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna talningamálsins svokallaða kalla eftir viðbrögðum valdhafa sem þeir segja að þurfi að gera málið upp við samvisku sína. 

Málið snýr að eftirmálum endurtalningar í Norðvesturkjördæmi sem riðlaði til þingsætum. Dómurinn gerir athugasemd við að þingmenn hafi að lokum sjálfir úrskurðað um eigið kjör og að framkvæmdin brjóti gegn rétti til skilvirkra réttarúrræða og frjálsra kosninga.

„Í fyrsta lagi þarf að grípa til stjórnarskrárbreytinga þannig að hægt sé að kæra gildi kosninga beint til dóms, frekar en að fara í gegnum Alþingi. Alþingismenn eiga ekki sjálfir að ákveða það hvort kosningar, sem þeir fengu umboð í, hafi verið gildar eða ekki. Það sér það hver maður að það gengur ekki upp,“ sagði Magnús í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Hann kallar eftir opnu samtali í framhaldinu frá stjórnarmeirihlutanum.

„Þau völdu að synja kröfu okkar um uppkosningu í Norðvesturkjördæmi og þess vegna fór málið í þennan farveg. Þau höfðu val á sínum tíma og þau þurfa að gera það upp við sína samvisku hvernig þau bregðast við. En við þurfum að fá einhver viðbrögð.“

Guðmundur Gunnarsson segir mikinn létti að hafa fengið dóminn. 

„Þetta snerist aldrei um að breyta fortíðinni eða grenja sig inn á þing eins og sumir vildu meina að við værum að gera. Þetta er prinsipp-mál, þetta er réttlætismál og þarna er brotið á rétti borgaranna til frjálsra kosninga. Og það er ekki bara sigur okkar Magnúsar, heldur okkar allra, okkar borgaranna,“ segir Guðmundur. 

„Nú þurfum við að horfa fram og einbeita okkur að því hvernig við lögum kerfin okkar, þannig að þau séu ekki þannig hönnuð að þeir sem eru sigurvegarar kosninganna séu ekki líka dómarar í eigin sök.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×