Fótbolti

Stjóri Dortmund bað um sjálfu með Del Piero

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brostu! Edin Terzic tekur sjálfu með Alessandro Del Piero.
Brostu! Edin Terzic tekur sjálfu með Alessandro Del Piero.

Knattspyrnustjórar stærstu liða heims eru í grunninn fótboltaáhugamenn sem eiga sínar hetjur eins og kom í ljós eftir leik Atlético Madrid og Borussia Dortmund í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Atlético var mun sterkari aðilinn lengst af í leiknum á Wanda Metropolitano og var 2-0 yfir í hálfleik. Dortmund sótti í sig veðrið eftir því sem á leikinn leið og Sébastien Haller minnkaði muninn þegar tíu mínútur voru eftir. Lokatölur urðu 2-1 og Dortmund á því enn ágætis möguleika fyrir seinni leikinn á Signal Iduna Park á þriðjudaginn.

Eftir leikinn mætti Edin Terzic, stjóri Dortmund, í viðtal í vinsælum markaþætti CBS Sports. Sá sem tók viðtalið var enginn annar en Alessandro Del Piero, sem var einn besti leikmaður heims á sínum tíma.

Eftir viðtalið gat Terzic hins vegar ekki stillt sig um að biðja Del Piero um sjálfu. Og ítalska goðið varð við þeirri ósk eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Del Piero er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Juventus en hann lék með liðinu í nítján ár. Hann er bæði leikja- og markahæstur í sögu Juventus með 705 leiki og 290 mörk. Del Piero vann allt sem hægt var að vinna með Juventus, meðal annars ítalska meistaratitilinn sex sinnum og Meistaradeild Evrópu einu sinni.

Del Piero lék 91 leik fyrir ítalska landsliðið og skoraði 27 mörk. Hann varð heimsmeistari með Ítalíu 2006.


Tengdar fréttir

Ein­vígið lifir þökk sé marki undir lokin

Atlético Madrid hefur ekki enn tapað í útsláttarkeppni Meistaradeild Evrópu undir stjórn Diego Simeone. Leikirnir eru nú orðnir 17 talsins en Atlétíco lagði Dortmund 2-1 í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×