Fótbolti

Ísraelar segja Ís­land vera að drukkna í krísu

Aron Guðmundsson skrifar
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands og Guðlaugur Victor Pálsson, fallast í faðma eftir leik gegn Portúgal á síðast ári
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands og Guðlaugur Victor Pálsson, fallast í faðma eftir leik gegn Portúgal á síðast ári Vísir/ Hulda Margrét

Á ísraelska vef­miðlinum One má finna ítar­legan greinar­stúf sem ber nafnið Ís­land í sí­dýpkandi krísu. Þar eru mála­vendingar ís­lenska karla­lands­liðsins í knatt­spyrnu undan­farin ár rekin en á morgun munu Ísrael og Ís­land mætast í undan­úr­slitum um­spils um sæti á EM 2024.

„Minningar um EM 2016 og HM 2018 virðast nú í óra­fjar­lægð,“ eru orðin sem greinin hefst á og er hnignun ís­lenska lands­liðsins frá þessum tímum svo kort­lögð.

Á þeim tíma hafi vonir staðið til þess að góður árangur Ís­lands inn á knatt­spyrnu­vellinum myndi halda á­fram. Ein kyn­slóð myndi taka við af annarra. „Í stuttu máli sagt varð það ekki raunin. Hnignun liðsins var hröð.“

Michael Yokhin, blaða­maður One sem ritar greinina segir nokkrar á­stæður fyrir döprum árangri ís­lenska lands­liðsins upp á síð­kastið. Rekur hann meðal annars þar mál nokkurra af stærstu leik­mönnum ís­lenska lands­liðsins.

Mál tengd Gylfa Þór Sigurðs­syni og Aroni Einari Gunnars­syni, sem voru sakaðir um kyn­ferðis­brot, eigi þátt í því en bæði mál hafa nú verið látið niður falla en á meðan að málin voru í gangi máttu Gylfi Þór og Aron ekki spila með lands­liðinu.

Þá vekur hann athygli á því að Albert Guðmundsson, leikmaður Genoa, sé snúinn aftur í íslenska landsliðið eftir af kynferðisbrotamál á hendur honum var látið niður falla. Niðurfellingin var kærð en stjórn KSÍ hefur heimilað Alberti að taka þátt í leik morgundagsins. 

Stað­reyndin sé einnig sú að fáir leikmenn í nú­verandi leik­manna­hópi Ís­lands hafi verið hluti af HM hópi liðsins árið 2018. 

Á sama tíma séu nokkur dæmi um nú­verandi landsliðsmenn Ís­lands sem séu að fá fá tæki­færi með sínum fé­lags­liðum. Nefnir Yochin þá Hjört Her­manns­son, Hákon Rafn Valdimars­son og Jóhann Berg Guð­munds­son.

Yokhin tekur Age Hareide, lands­liðs­þjálfara Ís­lands einnig fyrir.

„Hann er hikandi í að gefa tveimur ungum leik­mönnum tæki­færi á miðjunni. Segir þá of unga. Þá Ísak Berg­mann Jóhannes­son og Kristian Nökkva Hlyns­son sem er jafnan í byrjunar­liði Ajax. Hann er án efa mest skapandi leik­maður Ís­lands þessa dagana en hefur bara einn hálf­leik á sinni feril­skrá með ís­lenska lands­liðinu. Ekki er búist við því að Hareide tefli honum fram gegn Ísrael. Það eru góðar fréttir fyrir Alon Hazan (lands­liðs­þjálfara Ísrael) og leik­menn hans.“

Á heildina litið hafi frammi­staða Ís­lands í síðustu undan­keppni ekki verið upp á marga fiska.

„Dra­stískar breytingar þurfa að eiga sér stað ef leikurinn gegn Ísrael á ekki að vera beint fram­hald af þeirri undan­keppni. Sælu­minningarnar um EM 2016 og HM 2018 virðast nú í óra­fjar­lægð og í raun og veru er staða ís­lenska liðsins dökk eins og er. Ísraelska lands­liðið ber nú þá á­byrgð að sjá til þess að Ís­lendingar komist ekki út úr sinni krísu.“

Leikur Ísraels og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport á morgun. Upphitun hefst tíu mínútur yfir sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×