Innlent

„Það er verið að rýma Grinda­vík“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Skjáskot af gosinu úr vefmyndavél Vísis.
Skjáskot af gosinu úr vefmyndavél Vísis. Vísir

Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið í loftið yfir gossvæðið á Reykjanesi til að afla upplýsinga um eldgosið sem hófst á níunda tímanum. Verið er að lýsa yfir neyðarstigi á svæðinu.

Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur hjá Almannavörnum er verið að lýsa yfir neyðarstigi og hún vissi ekki betur en að rýming hafi gengið vel í Grindavík.

„Það er verið að aðstoða við rýmingu og á Svartsengissvæðinu. Maður sér á vefmyndavélum þar sem fólk er að keyra í burtu. Það er meiri fjöldi á Svarstengissvæðinu en í Grindavík,“ sagði Hjördís í samtali við Vísi en hún sagði óljóst hversu margir hafi verið í Grindavík.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvað margir. Það er verið að rýma Grindavík núna en síðustu nætur hefur verið gist í 5-10 húsum.“

Að sögn Hjördísar er þyrla Landhelgisgæslunnar komin í loftið með starfsmenn Almannavarna. Hún sagði ekki miklar upplýsingar að hafa um gosið enn sem komið er en í tilkynningu Almannavarna kemur fram að það sé á svæðinu á milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

„Ekki nema bara það sem við horfum á. Þyra gæslunnar með okkar fólk er að fara í loftið og þá fáum við nákvæmari upplýsingar. Hve stór spurngan er, hversu mikið umfangið er og hvert hraunið flæðir. Þetta snýst mikið um hjá okkur hvert hraunið er að renna og hvert líklegast er að það renni.“

Í kjölfarið verði byrjað á að greina hvert hraun muni líklegast renna.

„Það er byrjað á því þegar upplýsingarnar koma úr þyrlunni. Það má búast við upplýsingum á næsta klukkutíma en þetta gerist allt saman mjög hratt. Vefmyndavélar gefa okkur ansi góða sýn og öllum hinum sem fylgjast með í beinni útsendingu.“


Tengdar fréttir

Eldgos er hafið

Eldgos hófst við Sundhnúka milli Stóra-Skógfells og Hagafells klukkan 20:23 í kvöld. Aðdragandinn var stuttur. Hraun rennur í tvær áttir og ógnar bæði Grindavíkurvegi og Suðurstrandarvegi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×