Fótbolti

„Erum að fara að spila á móti fótboltamönnum, ekki her­mönnum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. KSÍ

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segir að leikið verði gegn knattspyrnumönnum en ekki hermönnum þegar Ísland og Ísrael eigast við í umspili um sæti á EM í Þýskalandi eftir fimm daga.

Ísland og Írael mætast í Ungverjalandi í hreinum úrslitaleik um laust sæti á Evrópumótinu sem fram fer í Þýskalandi í sumar. Þrátt fyrir gríðarlegt mikilvægi leiksins hefur önnur hávær umræða átt sér stað vegna þeirra átaka og ástands sem ríkir á Gasasvæðinu.

Åge Hareide sat fyrir svörum á blaðamannafundi í gær þegar hann tilkynnti hvaða leikmenn muini taka þátt í leiknum mikilvæga og umdeilda. Þar var hann meðal annars spurður út í pólitíkina og allt sem henni tengist í kringum leikinn.

„Í Skandinavíu erum við alin upp við að eiga að hafa skoðanir á hlutunum. Við erum ekki eins og kindur sem ganga um og segja ekki neitt. Við höfum skoðanir á hlutunum“ sagði Hareide.

„Þetta er erfitt mál þegar við horfum á hverjir byrjuðu þetta og hugsum út í alla ísraelsku gíslana og öll börnin og allar konurnar sem lenda í sprengjuárásum á Gasa. Ef þeir frelsa alla gíslana þá hætta sprengjuárásirnar. Það er auðvelt að segja það, en þessi átök hafa gengið á í áraraðir.“

Tekur ekki afstöðu með eða á móti

„Ég tek ekki neina afstöðu með Ísrael eða Palestínu því diplómatarnir geta ekki einu sinni leyst úr þessum deilum. Ég er bara knattspyrnuþjálfari og ég veit bara að mér finnst óþægilegt að fylgjast með þessu. Þetta snýst ekki um að taka afstöðu, og ég geri það ekki. Ég get ekki leyst þessi mál.“

„Ég hef áður sagt að við erum að fara að spila á móti fótboltamönnum, ekki hermönnum. Það er mjög mikilvægt. Fótbolti er íþrótt og við verðum að haga okkur eins og íþróttamenn. En við verðum líka að átta okkur á því, bæði leikmenn og þjálfarar, hvað er að gerast í heiminum í kringum okkur. Ég er hræddur við það sem er að gerast í heiminum. Ekki bara í Ísrael, Palestínu og Gasa. Þetta er út um allan heim og það er það sem veldur mér áhyggjum.“

Hann segir þó að íþróttir hafi ákveðinn sameiningarmátt og að það hafi sýnt sig í gegnum árin.

„Íþróttir hafa sýnt það í gegnum árin að það er hægt að mætast friðsamlega í keppnisleik þrátt fyrir mismunandi kerfi og stöður ríkja og þjóða. Við getum spilað við þjóðir sem eru ekki lýðveldi. Við höfum ekkert á móti leikmönnunum á vellinum, en stundum þarftu að velta pólitíkinni í landinu fyrir þér og svo myndarðu þér skoðun á henni. Það hefur ekkert að gera með fólkið í viðkomandi landi. Fyrir mér er fótbolti bara fótbolti,“ sagði Hareide að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×