Innlent

Lík­legt að loka þurfi vegum vegna veðurs

Bjarki Sigurðsson skrifar
Veðrið á Ísafirði er milt sem stendur en gul viðvörun tekur gildi þar í nótt.
Veðrið á Ísafirði er milt sem stendur en gul viðvörun tekur gildi þar í nótt. Vísir/Einar

Von er á stórhríð á Vestfjörðum og Snæfellsnesi á morgun, og gætu vindhviður náð allt að 36 metrum á sekúndu. Aðalvarðstjóri á Ísafirði segir að vegna veðursins gæti þurft að ráðast í lokanir á vegum.

Gular viðvaranir taka gildi á Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum í fyrramálið. Spáð er töluverðum vindi, sem og snjókomu. Viðvaranirnar gilda allt til miðnættis aðfaranótt þriðjudags en einnig verður í gildi viðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra um svipað leyti.

Í færslu Einar Sveinbjörnssonar, veðurfræðings hjá Vegagerðinni, segir að í fyrramálið megi gera ráð fyrir stórhríð norðantil á Vestfjörðum, Ströndum og í útsveitum Norðurlands. Sama á við um Dalina og Snæfellsnes. Hætt er við að vegir teppist fljótt, meðal annars við Holtavörðuheiði og Bröttubrekku.

Gert er ráð fyrir vindhviðum sem ná allt að 36 metrum á sekúndu á Vestfjörðum en Ingvar Jakobsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Ísafirði, segir veðrið milt sem stendur en menn séu þó reiðubúnir.

„Vont veður er svosem eitthvað sem Vestfirðingar eru vanir en samt sem áður þarf að gæta að eigin öryggi og ég get bara sagt það að við erum að horfa til himins ef svo má segja,“ segir Ingvar.

Hann segir varðskip Landhelgisgæslunnar sigla í átt að svæðinu, líkt orðið er að venju þegar spáin er eins slæm og hún er nú. Þá gæti þurft að loka einhverjum vegum.

„Eins og spáin er núna, þá þætti mér mjög líklegt að það yrðu lokanir á fjallvegum en varðandi Súðavíkurhlíð og Flateyrarveg, þá þætti mér mjög líklegt að þeim yrði lokað út af snjóflóðahættu. Það er gert í tíma,“ segir Ingvar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×