Innlent

Salvör Nor­dal í­hugar forsetaframboð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Salvör hefur gegnt embætti umboðsmanns barna frá árinu 2017. 
Salvör hefur gegnt embætti umboðsmanns barna frá árinu 2017.  Vísir/Einar

Salvör Nordal umboðsmaður barna hefur bæst í hóp fólks sem íhugar forsetaframboð. Hún segir embættið mikla skuldbindingu og því ætli hún að hugsa sig mjög vandlega um. 

Mbl ræddi við Salvöru fyrr í dag, þá sagðist hún ætla að hugsa sig um fram að páskum. 

Í samtali við Vísi segir Salvör að fólk hafi komið að máli við hana bæði áður og nú, en í þetta skiptið sé hún tilbúin að íhuga málið.

„En allra síðustu daga hef ég fundið fyrir meiri áhuga, þannig að ég ætla að taka einn snúning á þessu,“ segir Salvör.

Eins og áður segir starfar Salvör sem umboðsmaður barna en fyrir það starfaði hún sem forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Salvör hefur áður setið í stjórnlagaráði og er með doktorsgráðu í heimspeki. 

„Það er auðvitað mikið traust sem fólk ber til manns þegar það nefnir nafnið manns í tengslum við þetta embætti,“ segir Salvör og bætir við að það sé ástæða til þess að taka því alvarlega.

„En þetta er auðvitað mikil skuldbinding að fara í þetta embætti og þess vegna hef ég ekki verið tilbúin til þess áður.“ Árin 2012 og 2016 bárust Salvöru áskoranir um að fara fram en þá segist hún ekki hafa verið tilbúin til þess að gefa kost á sér. 

„Þannig að maður þarf auðvitað að hugsa þetta mjög vandlega, bæði að fara í framboðið sjálft og meta það hvort maður eigi einhvern möguleika eða eitthvað erindi,“ segir Salvör að lokum.

Allar nýjustu fréttir af forsetakosningunum má finna í forsetavakt Vísis hér að neðan. 


Tengdar fréttir

Gunni hvetur Baldur og Felix fram

Gunnar Helgason skorar á stjórnmálafræðinginn Baldur Þórhallsson að bjóða sig fram til forseta. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-hópi sem ber heitið Baldur og Felix – alla leið. Þegar þessi frétt er skrifuð eru rúmlega sjö hundruð meðlimir í hópnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×