Fótbolti

Andaði léttar er mar­traðar­riðill þaut hjá

Aron Guðmundsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna marki á móti Serbíu á Kópavogsvellinum á dögunum.
Íslensku stelpurnar fagna marki á móti Serbíu á Kópavogsvellinum á dögunum. Vísir/Hulda Margrét

Ís­lenska kvenna­lands­liðið í fót­bolta var í pottinum þegar dregið var í undan­keppni EM 2025 í fót­bolta í gær. Lands­liðs­þjálfarinn andaði léttar eftir að Ís­land slapp við sann­kallaðan mar­traðar­riðil. Átt­faldir Evrópu­meistarar bíða þó Stelpnanna okkar.

Dregið var í höfuð­stöðvum UEFA í Nyon í Sviss og fór svo að liðið verður með átt­földum Evrópu­meisturum Þýska­lands, Austur­ríki og Pól­landi í riðli.

„Þetta er fínt heilt yfir,“ segir Þor­steinn Hall­dórs­son lands­liðs­þjálfari um riðilinn sem Ís­land dróst í. „Við gerum okkur auð­vitað grein fyrir því að leikirnir á móti Þýska­landi verða býsna erfiðir. Þetta er lið sem við vorum með núna síðast í Þjóða­deildinni. Þá öttum við kappi gegn Austur­ríki á úti­velli í fyrra og unnum þær 1-0 í hörku­leik.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands telur mögueikana góða í krefjandi riðli íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í undankeppni EM 2025Vísir/Sigurjón Ólason

Við vitum að Austur­ríki býr yfir hörkuliði, þær sýndu mátt sinn og megin í Þjóða­deildinni núna síðast. Þá spiluðum æfinga­leik við Pól­verjana fyrir síðasta Evrópu­mót. Unnum þær þar. Þetta pólska lið er gott, með góða leik­menn innan­borðs. Auð­vitað eru þetta allt sterkar þjóðir í þessari A-deild og er maður því heilt yfir sáttur með þennan riðil.“

Klárlega riðill sem maður vildi ekki lenda í

Stað­reyndin er nefni­lega sú að Ís­land slapp við að enda í riðli með heims­meisturum Spánar eða í sann­kölluðum mar­traðar­riðli með Eng­landi og Frakk­landi innan­borðs.

Hvernig var fyrir þig að fylgjast með drættinum og horfa mögu­lega upp á að lenda í þessum mar­traðar­riðli?

„Þegar að það var búið að draga fyrstu tvær þjóðirnar úr okkar styrk­leika­flokki og sá næst mögu­leika á að lenda í riðli með Eng­lendingum og Frökkum, þá var það klár­lega riðill sem maður vildi ekki lenda í. Sem betur fer enduðu Svíarnir þar. Maður var bara sáttur við að sleppa við að enda í þeim riðli. Það var mjög gott.“

Bryndís Arna og Sveindís Jane fagna jöfnunarmarki Íslands gegn Serbíu á dögunumVísir/Hulda Margrét

Margar leiðir á EM

Sú breyting hefur orðið á undan­keppninni að hún er bein­tengd við árangur í Þjóða­deildinni. Þar stendur Ís­land vel að vígi og á­vinningur liðsins af því að bera sigur úr býtum gegn Serbíu, í ein­vígi liðanna um laust sæti í A-deild, að koma betur og betur í ljós.

Liðin í fyrsta og öðru sæti í sínum riðlum í A-deild komast beint á EM en þau lið sem enda í þriðja og fjórða sæti fara í um­spil um sæti á EM. Þar bíður ein­vígi gegn einu af átta bestu liðunum úr C-deild í undan­úr­slitum og svo annað hvort ein­vígi gegn liði úr B eða C deild í úr­slitum. Þá munu þau lið sem enda í neðstu sætum sinna riðla í A-deildinni falla niður í B-deild.

Ís­land mun því alltaf, að minnsta kosti, fara í um­spil um laust sæti á EM. Gyllta gæsin er hins vegar að enda í einum af tveimur efstu sætum riðilsins og tryggja sér beinan far­miða á mótið sem fer fram í Sviss á næsta ári.

„Auð­vitað stefnum við að komast beint á EM, aðalmark­miðið snýr að því að komast á EM, sama hvaða leið við förum að því mark­miði, en stefnan er sett á annað af þessum efstu tveimur sætum riðilsins. Þessi riðill gefur okkur vonandi tæki­færi til þess. Maður býst við harðri bar­áttu um þetta annað sæti milli okkar, Austur­ríkis og væntan­lega Pól­lands líka. Heilt yfir er þetta bara fínasta niður­staða fyrir okkur. Ég er því þokka­lega bjart­sýnn.“

Glódís Perla, landsliðsfyrirliði, fagnar með samherjum sínum í íslenska landsliðinu.Vísir/Vilhelm

Þétt spilað sem hentar okkur vel

Það verður leikið þétt í undan­keppninni. Fyrstu um­ferðir riðla­keppninnar fara fram í næsta mánuði og svo tekur við hvert lands­liðs­verk­efnið á fætur öðru og í júlí mun svo riðla­keppninni ljúka. Þá skýrast næstu skref fyrir ís­lenska lands­liðið. Hvort það fari beint á EM eða taki þátt í um­spili.

Hvernig finnst þér liðið í stakk búið til að hefja þessa undan­keppni?

„Miðað við á­standið á leik­manna­hópnum lítur þetta bara vel út. Það er kannski bara betra fyrir okkur að það sé stutt á milli leikja eins og var til dæmis raunin síðasta haust. Það hjálpaði okkur að tíminn sem leið á milli leikja var ekki svo langur. Ég á von á því að þetta hjálpi okkur frekar en hitt. Að hafa styttra á milli leikja. Að við séum ekki að fá ryð í hópinn. Heldur að það séu bara fjórar vikur milli leikja. Ég held að það hjálpi okkur, gefi okkur betri mögu­leika á því að vera sam­stilltari í hverju verk­efni fyrir sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×