Innlent

Munu leggja enn betur við hlustir

Atli Ísleifsson skrifar
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor hefur verið orðaður við forsetaframboð.
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor hefur verið orðaður við forsetaframboð. Vísir/Vilhelm

„Ég held að þetta verði að leiða til þess að við leggjum enn betur við hlustir.“ Þetta segir Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor eftir fund hóps fólks sem kom saman í gærkvöldi til að hvetja Baldur til að bjóða sig fram til forseta í komandi kosningum.

„Það kom hópur saman í gær og var þarna að hvetja okkur áfram. Við vöknuðum svo í morgun og vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Þetta er hálfóraunverulegt. Það hafa verið ótrúlega mikil viðbrögð við þessari hópamyndun,“ segir Baldur í samtali við fréttastofu. Stofnaður hefur verið Facebook-hópur - Baldur og Felix - alla leið - þar sem Baldur er hvattur til að bjóða sig fram. Á sjöunda þúsund hafa nú skráð sig í hópinn. 

Baldur er í hópi þeirra sem hafa verið orðaðir við forsetaframboð, en sjöundi forseti lýðveldisins verður kjörinn í kosningum sem fram fara 1. júní. Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri eftir að hafa gegnt embættinu frá árinu 2016.

„Við Felix höfum sagt það áður við séum að hlusta. Ég held að þetta verði að leiða til þessa við leggjum enn betur við hlustir.“

Baldur segist ekki hafa áður mátað við sig við embætti forseta. 

„Ég hef verið mjög feiminn gagnvart þessu. Ég var það líka fyrir átta árum og vísaði því strax frá mér þá. Ég er náttúrulega bara sveitastrákur og hafði ekki séð mig í þessu hlutverki. Við Felix höfum jú verið að berjast fyrir grundvallarmannréttindum okkar og það er ekki nema nýtilkomið að einhver gæti ímyndað sér að samkynhneigt par gæti sest að á Bessastöðum.“


Tengdar fréttir

Gunni hvetur Baldur og Felix fram

Gunnar Helgason skorar á stjórnmálafræðinginn Baldur Þórhallsson að bjóða sig fram til forseta. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-hópi sem ber heitið Baldur og Felix – alla leið. Þegar þessi frétt er skrifuð eru rúmlega sjö hundruð meðlimir í hópnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×