Fótbolti

Risasigur skilaði Noregi í A-deild

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
María Þórisdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá norska liðinu.
María Þórisdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá norska liðinu. Vísir/Getty

María Þórisdóttir og stöllur hennar í norska kvennalandsliðinu í fótbolta munu leika í A-deild Þjóðadeildarinnar eftir 5-0 risasigur gegn Króatíu í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti í deild þeirra bestu.

Norska liðið vann sannfærandi 3-0 sigur í fyrri leiknum sem fram fór í Króatíu og því var liðið í ansi góðri stöðu fyrir leik kvöldsins.

Elisabeth Terland kom Noregi yfir strax á níundu mínútu áður en tvö mörk frá Sophie Roman Haug á 32. og 40. mínútu sáu til þess að norska liðið leiddi 3-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningherbergja.

Frida Leonhardsen-Maanum bætti svo fjórða marki norska liðsins við á 66. mínútu, aðeins fjórum mínútum eftir að hún kom inn af varamannabekknum. Hún var svo aftur á ferðinni þegar rétt rúmar tíu mínútur voru til leiksloka þegar hún bætti fimmta markinu við og gulltryggði öruggan sigur Norðmanna. 

Niðurstaðan varð því 5-0 sigur Noregs og samanlagt vann liðið 8-0. Noregur mun því leika í A-deild Þjóðadeildarinnar á kostnað Króatíu sem fer í B-deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×