Innlent

Gripinn glóð­volgur með tvö kíló af kókaíni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá töskusalnum á Keflavíkurflugvelli. Maðurinn var gripinn með tvö kíló af kókaíni í ferðatösku sinni við komuna frá Belgíu.
Frá töskusalnum á Keflavíkurflugvelli. Maðurinn var gripinn með tvö kíló af kókaíni í ferðatösku sinni við komuna frá Belgíu. Isavia

Erlendur karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja ára og átta mánaða fangelsi eftir að hafa verið gripinn með rúmlega tvö kíló af kókaíni í ferðatösku sinni við komuna til landsins í desember síðastliðnum.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 16. febrúar eftir að maðurinn, Mustafa Rada, játaði sök við þingfestingu tíu dögum fyrr.

Hann var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa fimmtudaginn 7. desember staðið að innflutningi á rúmlega tveimur kílóum af kókaíni með styrkleika rúmlega sextíu prósent. Efnin voru ætluð til sölu í ágóðaskyni hér á landi. Rada kom til landsins með flugi frá Belgíu og fundust efnin falin í farangurstösku hans á Keflavíkurflugvelli.

Engin gögn voru til um að Rada hefði áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Ljóst væri að hann væri ekki eigandi efnanna eða skipuleggjandi. Hann hefði samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu, væri svokallað burðardýr.

Var litið til þess við ákvörðun refsingar sem og samvinnu sem hann hefði sýnt við rannsókn málsins. Þá hefði hann játað brot sitt skýlaust frá upphafi. Þá hefði hegðun hans í gæsluvarðhaldi verið góð.

Á móti yrði ekki litið fram hjá því að hann hefði flutt talsvert magn af sterkum efnum til landsins og aðkoma hans verið ómissandi liður í því ferli að koma þeim í dreifingu.

Þótti 32 mánaða fangelsi hæfileg refsing en frá refsingunni dragast þeir rúmlega tveir mánuðir sem hann hefur sætt gæsluvarðhaldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×