Innlent

At­laga með hníf í sund­laug til rann­sóknar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sundlaugin sem um ræðir er á höfuðborgarsvæðinu, en ekki kemur fram hvaða laug um ræðir. Myndin er úr safni.
Sundlaugin sem um ræðir er á höfuðborgarsvæðinu, en ekki kemur fram hvaða laug um ræðir. Myndin er úr safni. Vísir/Arnar

Lögreglunni var í gær tilkynnt um einstaklinga sem veittust að öðrum manni með hníf í sundlaug á höfuðborgarsvæðinu. Enginn slasaðist vegna málsins sem er nú í rannsókn hjá lögreglu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Ekki kemur fram hversu margir séu grunaðir í málinu, en miðað við orðalag lögreglu eru það að minnsta kosti tveir. Ekki kemur fram um hvaða sundlaug er að ræða.

Í dagbókinni er einnig greint frá tilkynningu sem lögregla fékk um mann sem var að stofna til slagsmála. Maðurinn var á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur og að því sem kemur fram hjá lögreglu var hann að egna gesti og starfsmenn staðarins til slagsmála. Fram kemur að maðurinn hafi verið mjög ölvaður og hann handtekinn sökum ástands.

Í miðbænum var þar að auki tilkynnt um slagsmál og tvær líkamsárásir. Fram kemur að önnur þeirra hafi átt sér stað á skemmtistað.

Í Hafnarfriði var tilkynnt um slagsmál annars vegar og líkamsárás hins vegar.

Þá greinir lögregla frá þónokkrum atvikum sem varða ölvunarakstur, sem og önnur brot, í dagbók sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×