Innlent

Í Kænu­garði til að sýna Úkraínu sam­stöðu eftir nær tvö ár af stríði

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Vísir/Vilhelm

Á morgun eru tvö ár síðan Rússar hófu allsherjarinnrás í Úkraínu sem leitt hefur til stærstu öryggiskrísu í Evrópu í nokkra áratugi. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis er af þessu tilefni stödd í Kænugarði en hún segir baráttuvilja- og þrek Úkraínumanna mikið og að Evrópa þurfi að standa betur með þeim.

Árið 2014 innlimuðu Rússar Krímskaga en meðal annars þess vegna hafa Úkraínumenn sagt að allsherjarinnrás Rússa þann 24. febrúar 2022 hefði ekki átt að koma íbúum Evrópu í opna skjöldu. Martöð Úkraínumanna hófst fyrir fulla alvöru þennan dag fyrir tæpum tveimur árum en þá hófu Rússar loftárásir á nokkrar borgir samtímis, þar á meðal á Kænugarð. Til að minnast þessa dags og þeirra Úkraínumanna sem fallið hafa í stríðinu bauð úkraínska þingið formönnum utanríkismálanefnda í Evrópu og Kanada til Kænugarðs.

Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis heimsótti úkraínska þingið í morgun og fundaði með forseta úkraínska þingsins og formönnum nefnda. Hún segir Úkraínumenn meðvitaða um þá stríðsþreytu sem hefur látið á sér kræla í Evrópu síðastliðið ár.

„Það er svo merkilegt að hitta þetta fólk og finna hvað það er mikill styrkur í þessu fólki og mikið baráttuþrek og baráttuvilji og manni finnst það eiginlega hjákátlegt að maður nefnir, bæði í okkar álfu og víðar hjá vestrænum ríkjum, einhverja stríðsþreytu hjá þeim sem eru þó ekki eiginlega að heyja þetta stríð.“

Eftir því sem á líði færist hörmungarnar nær öllum í Úkraínu.

„Ekki bara þegar kemur að eigin heilsu, heimili og atvinnu og annað heldur líka í mannfalli, þetta er orðið svo svakalega nálægt þeim öllum.“

Efst í huga Diljár er þakklæti í garð Úkraínumanna.

„Þeir eru að berjast fyrir okkar gildum og fyrir okkar heimsmynd sem er sótt að úr öllum áttum og fyrir það erum við alveg gríðarlega þakklát og það er mikill samhljómur í okkar hópi hér og við vitum það fullvel að við þurfum að gera meira og standa okkur betur í að styðja við og standa með vinum okkar hér í Úkraínu.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×